Opin bók í Edinborg á laugardag
Laugardaginn 17. nóvember kl. 16:00 verður bókmenntavakan Opin bók haldin í Edinborgarsal Edinborgarhússins. Opin bók er árviss viðburður í menningarlífinu á Ísafirði þar sem rithöfundar koma fram og lesa upp úr nýútkomnum bókum sínum. Boðið verður upp á kaffi og smákökur undir lestrinum. Rithöfundar ársins eru Auður Ava Ólafsdóttir, Eiríkur Örn Norðdahl, Finnbogi Hermannsson,Halldóra Thoroddsen, Jón Jónsson og Rúnar Helgi Vignisson.
Hér má sjá umfjöllun um einstaka höfunda og bækur:
Auður Ava Ólafsdóttir fjallar um stærstu spurningar mannsins, um lífið, dauðann og sjálfa ástina sem öllu skiptir, í sinni fimmtu skáldsögu, Ör. Auður Ava hefur skrifað skáldsögur, leikrit, ljóð og er textahöfundur popphljómsveitarinnar Milkywhale. Hún er margverðlaunuð fyrir skáldsögur sínar sem hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál. Auður Ava hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin, bóksalaverðlaunin og bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir skáldsöguna Ör.
Ungfrú Ísland
„Karlmenn fæðast skáld. Þeir eru um fermingu þegar þeir gangast við því óumflýjanlega hlutskipti sínu að vera snillingar. Það skiptir engu hvort þeir skrifa bækur eða ekki. Konur verða kynþroska og eignast börn sem koma í veg fyrir að þær geti skrifað.“
Árið er 1963. Íslendingar eru 177 þúsund og eiga einn Nóbelshöfund. Söguhetja bókar, Hekla, er ung skáldkona sem fædd er á slóðum Laxdælu. Hún heldur til Reykjavíkur með nokkur skáldsagnahandrit í fórum sínum.
Sjötta skáldsaga Auðar Övu fjallar um sköpunarþrána í heimi þar sem karlmenn fæðast skáld og konum er boðið að verða Ungfrú Ísland.
Auður Ava Ólafsdóttir hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir síðustu skáldsögu sína, Ör. Bækur hennar koma út á yfir 20 tungumálum.
Eiríkur Örn Norðdahl stendur í fremstu röð íslenskra samtímahöfunda og hafa bækur hans komið
út og hlotið margs konar viðurkenningar víða um heim. Fyrir skáldsöguna Illsku hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin og var tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Hér skoðar hann samtíma okkar með fránum augum nettröllsins Hans Blævar sem allt sér og engum hlífir.
„Dömur mínar og lollarar, ég þakka ykkur frá innstu hjartarótum fyrir að setja ykkur í samband en háværar frásagnir af afhroði mínu, hruni, dauða, æruleysi og eignabruna eru sem sagt heldur orðum auknar: Ég lifi, sprikla og dilla mér þótt fjölmiðlar beri á mig ímyndaðar sakir og leyfi *sérfræðingum* (lol) að skálda í eyðurnar af sínu annálaða andríki.
Það er ekki liðin heil nótt frá því lögreglan barði að dyrum á Samastað, ekki hálf klukkustund frá því ég var sjálft hrakið á flótta, og sögurnar sem ég hef fyrir kærleika guðanna fengið að lesa um sjálft mig í þeim miðlum sem kalla sig „hefðbundna“ eða jafnvel „krítíska“ (he he) telja sennilega á annan tug. Það er að sönnu gaman að fylgjast með – svona einsog það er gaman að horfa á skordýr sem lent hefur á bakinu sprikla í þeirri von að finna fæturna aftur – en er þetta ekki pínulítið aumkunarvert? Í alvöru.
Fyrir 22 klst. 11 mín. síðan.
622 líkar við þessa stöðu.
181 hafa gert athugasemd.“
Jón Jónsson er þjóðfræðingur sem býr og starfar norður á Ströndum, síðustu tvö árin hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofu sem hefur höfuðstöðvar á Hólmavík. Jón hefur unnið að margvíslegum rannsóknar-, nýsköpunar- og miðlunarverkefnum.
Á mörkum mennskunnar. Viðhorf til förufólks í sögnum og samfélagi.
Sögur af sérkennilegu fólki hafa lengi heillað Íslendinga. Þar á meðal eru fjölbreyttar sagnir um fátækt förufólk sem flakkaði um landið fyrr á öldum. Í bókinni er fjallað um þessar frásagnir og stöðu flakkara í samfélaginu. Þeir voru umtalaður hópur, rækilega jaðarsettur og oft líkari þjóðtrúarverum en manneskjum í sögunum. Hörmulegt atlæti Stuttu-Siggu í æsku, skringileg skemmtiatriði Halldórs Hómers, rifin kæði Jóhanns bera og uppreisnarseggurinn Sölvi Helgason koma öll við sögu.
Finnbogi Hermannsson les úr skáldsögu sinni Undir hrauni sem er ástarsaga og gerist í upphafi síðari heimstyrjaldar. Söguhetjan er Reykjavíkurstúlka sem kynnist þýskum skipbrotsmanni af fragtskipinnu Bahía Blanka sem sökk út af Patreksfirði í janúar 1940 og styrjöld þá hafin. Takast með þeim ástir í Reykjavík og stúlkan heimsækir piltinn í dvalarstað hans austur í Hekluhrauni þar sem hann dylst fyrir breska hernámsliðinu ásamt félaga sínum. Myndi einhver kalla atburðarásina í bókinni með ólíkindum en höfundur styðst við heimildir þar á meðal úr munnlegri geymd gamalla Rangvellinga sem muna vel dvöl drengjanna fyrir austan og er sagan kunn þar um slóðir enda þótt hún hafi aldrei ratað á spjöld sögunnar.
Í bókinni Undir hrauni sem er fornt heiti á jörðinni Selsundi segir líka ögn frá Augústi Lehrmann, þýska piltinum sem flúði til Vestfjarða í upphafi seinna stríðs og duldist víða. Þar á meðal í fylgsni einu við utanvert Ísafjarðardjúp og hefur aldrei verið greint frá því fyrr opinberlega.
Halldóra Thoroddsen er fædd árið 1950 í Reykjavík. Katrínarsaga er áttunda bók hennar en áður hefur hún gefið út fjórar ljóðabækur, örsagna- og smásagnasafn og eina skáldsögu. Halldóra hlaut bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins árið 2017 fyrir bókin Tvöfalt gler þar sem hún þótti leita á nýjar slóðir hvað varðar efnistök og stíl.
Katrínarsaga er saga um goðsagnir og tímadrauga. Höfuðpersónu og vinum hennar er fylgt í gegnum hippaskeið og upphaf auðhyggju. Tvö ólík tímabil sem hanga þó saman séð úr fjarvídd.
Rúnar Helgi Vignisson, dósent í ritlist við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, hefur sent frá sér skáldsöguna Eftirbátur. Sagan er áttunda skáldverk hans en fyrir sitt síðasta skáldverk, smásagnasafnið Ást í meinum, hlaut hann Menningarverðlaun DV.
Eftirbátur fjallar um auglýsingamanninn Ægi sem leitar að föður sínum eftir að fiskibátur hans finnst mannlaus út af Vestfjörðum. Ægir neitar að trúa því að faðir hans hafi fallið útbyrðis og heldur af stað í leit að honum. Leitarleiðangrar Ægis vekja spurningar um faðernið sjálft í þessum harðbýla heimshluta. Hver er hinn raunverulegi faðir og hvað mótaði hann? Er nauðsynlegt að þekkja söguna til að vita hver maður er? Þetta vefst fyrir Ægi sem lifir og hrærist í núi auglýsingaheimsins og veit „andskotann ekkert um fortíðina“. Í leit sinni fer hann vítt og breitt um stórbrotna náttúru og sögu Vestfjarða þar sem rætur hans sjálfs liggja. Á sama tíma eru blikur á lofti í fjölskyldulífinu og brestir komnir í hina hefðbundnu karlmennskuímynd. Það er bókaforlagið Dimma sem gefur bókina út.