Opin bók í Edinborg

Sunnudaginn 20. nóvember, klukkan 16:00 verður bókmenntavakan Opin bók haldin í Edinborgarsal Edinborgarhússins á Ísafirði

 

Opin bók er árviss viðburður í menningarlífnu á Ísafirði þar sem rithöfundar koma fram og lesa upp úr nýútkomnum bókum sínum. Boðið verður upp á kaffi og smákökur undir lestrinum. Að þessu sinni koma fram eftirfarandi rithöfundar: Dagur Hjartarson les úr bókinni Síðasta ástarjátningin, Einar Kárason les úr nýútkominni bók sinni Passíusálmarnir, Herdís Hübner les úr bókinni Átthagar, Ísfirðingar margra landa segja frá. Hermann Stefánsson segir okkur sögu Látra Bjargar í bókinn Bjargræði og síðast en ekki síst les Sigríður Hagalín Björnsdóttir úr Eylandi nýútkominni skáldsögu sinni.


Dagur Hjartasson – Síðasta ástarjátningin
Í vor kom út skáldsagan Síðasta ástarjátningin eftir Dag Hjartarson. Bókin segir frá sögumanni, sem er búinn að gleyma hvað hann heitir, stúlkunni Kristínu sem hann verður ástfanginn af og sem berst fyrir heill og hamingju ísbjarna af heilum hug. Einnig koma við sögu Trausti vinur sögumanns sem vinnur að styttu af Davíð Oddsyni í fullri stærð og Baldri vini Kristínar sem ætlar sér að komast áfram með því að berjast fyrir ísbirni. Þetta er önnur skáldsaga Dags en hann er einnig vel þekktur fyrir ljóð sín og hefur bæði hlotið verðlaunin Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóðið Haustlægð árið 2016 og bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir Þar sem vindarnir hvílast árið 2012. Undanfarið hefur Dagur hlotið mikla athygli fyrir beittan, ljóðrænan húmor í pistlum sínum í Síðasta orðinu í Kastjósi á RÚV.


Einar Kárason - Passíusálmarnir
Bókin Passíusálmarnir eftir Einar kom út í haust og um hana segir á vef Forlagsins. Það er ógaman að lenda í skáldum: verða fyrirvaralaust persóna í skáldverki þar sem allt er meira og minna fært í stílinn ef því er ekki hreinlega snúið á haus. Margir þekkja sögu Einars Kárasonar um Eyvind Jónsson Storm, sem lengi bjó í Danmörku og var lýst sem heldur vafasömum karakter. Í þeirri frásögn var svo margt úr lagi fært að ekki verður lengur við unað. Rétt skal vera rétt. Hér grípur Stormur til varna, skýrir sitt mál og leiðréttir missagnir. Höfundurinn skýtur þó líka inn sínum sjónarmiðum og athugasemdum, milli þess sem vinir og vandamenn Stormsins leggja orð í belg, og allt er þetta lagt fyrir lesendur þeim til fróðleiks – eða að minnsta kosti skemmtunar. Passíusálmarnir eru óviðjafnanleg lesning sem snýr upp á skáldsöguformið; Eyvindur Stormur og Einar Kárason leiða saman hesta sína svo úr verður kostuleg og margslungin gamansaga. Einar Kárason er fæddur í Reykjavík 24. nóvember 1955. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Tjörnina árið 1975 og stundaði nám í almennri bókmenntasögu við HÍ frá 1976 til 1978. Hann stundaði almenn störf til sjós og lands fram til ársins 1978, en hefur verið rithöfundur að aðalstarfi síðan þá.


Herdís Hübner - Átthagar
Bókin „Átthagar – Ísfirðingar margra landa segja frá,“ eftir Herdísi M. Hübner kom út í nóvember. Í bókinni ræðir Herdís við níu konur sem allar hafa verið búsettar á Ísafirði í langan tíma, en eiga rætur sínar í fjarlægum heimkynnum. Í viðtali í bb.is segir Herdís ólíka þætti hafa kveikt hugmyndina að því að skrifa bókina. „Ég hef sjálf mjög gaman af því að lesa sögur frá fjarlægum löndum, ekki síst sögur úr hversdagslífinu og mér finnst alltaf jafn áhugavert að sjá að það sem skiptir mestu máli í lífinu er eins fyrir allar manneskjur, óháð því hvar þær búa eða við hvaða aðstæður. Að sama skapi finnst mér spennandi að heyra um hve fjölskrúðugt mannlífið getur verið og margt sem er ólíkt í öðrum menningarheimum. Við erum ótrúlega heppin hér á Ísafirði að hafa fengið hingað fólk frá öllum heimshornum sem hefur sest hér að og auðgað samfélagið á margvíslegan hátt og mig langaði að vekja athygli á því.“ Herdís er grunnskólakennari á Ísafirði, en hefur einnig verið ötul við þýðingar og má þar nefna metsölubækurnar „Borða, biðja elska“ eftir Elizabeth Gilbert og „Ég fremur en þú“ eftir Jojo Moyes. Átthagar hefur verið um eitt og hálft ár í smíðum, frá því byrjað var að taka viðtölin og þar til bókin var tilbúin. Það er Vestfirska forlagið sem gefur bókina út og er hún væntanleg úr prentsmiðjunni 7. nóvember. Viðmælendur Herdísar koma víða að, en þeir eru: Árný Aurangasri Hinriksson frá Sri Lanka, Barbara Gunnlaugsson frá Póllandi, Beata Joó frá Ungverjalandi, Beverly Stephenson frá Jamaica, Helga Ingeborg Hausner frá Þýskalandi, Paula Isabel Orellana de Díaz frá El Salvador, Monica Mackintosh frá Ástralíu, Nina Ivanova frá Rússlandi og Pálína (Pom) Sinthu frá Tælandi.


Hermann Stefánsson – Bjargræði
Látra-Björg (1716–1784), einhver stórbrotnasti karakter Íslandssögunnar, kraftaskáld á tímum þegar kvæði höfðu sannarlega áhrif á veruleikann og komu góðu eða illu til leiðar, sægar ur hinn mesti og fiskin með eindæmum, grálynd og ögrandi galdrakerling og hin versta gr la sem menn bæði óttuðust og virtu, húskona og eigin húsbóndi við svaðalegar aðstæður á Látrum,flökkukona í móðuharðindunum, brennd af háskalegum ástum samkvæmt þjóðtrúnni. Látra-Björg var sérkennilegt, stórbrotið og kraftmikið skáld og furðu nútímalegt, lét engan eiga neitt inni hjá sér, hitti alltaf í mark í samskiptum við valdsmenn og kyssti ekki vöndinn. Í þessari bók er Björg Einarsdóttir komin til Reykjavíkur í dularfullum erindagjörðum við ókunnugan mann og þótt hún sé fædd fyrir 300 árum hefur hún aldrei verið nær okkur. Hvað vill hún? Hverra erinda gengur hún? Hver er sagan á bak við goðsögnina um Látra-Björgu Bókina prýðir fjöldi kvæða eftir LátraBjörgu. Hermann kveður rímur í upplestri sínum. Hermann Stefánsson er höfundur fjölda bóka og vakti mikla athygli fyrir síðustu skáldsögu sína Leiðin út í heim sem tilnefnd var til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og hlaut einróma lof gagnrýnenda. 

Sigríður Hagalín Björnsdóttir – Eyland

Sigríður Hagalín Björnsdóttir er fréttamaður á Ríkisútvarpinu. Í fyrstu skáldsögu sinni tekst hún á við spurningar um hvað sé að tilheyra fjölskyldu og vera Íslendingur, hvað sameini okkur og sundri. Á vef útgáfufélagsins Benedikt má lesa eftirfarandi um bókina Eyland
Manstu hvar þú varst þegar það gerðist? Hjalti og María slíta ástarsambandi sínu og skyndilega er allt breytt. Stundum gerast svo stórir atburðir að þeir sameina allt mannkyn, eina örskotsstund, eins og slinkur hafi komið á þyngdaraflið og þjappað öllum heiminum saman. Einbúi í eyðifirði óttast ekkert meira en að björgunarsveitirnar finni hann. Á meðan hann bíður skrifar hann annál þess sem á undan er gengið. Eyland er hrollvekjandi ástar- og spennusaga, þar sem Íslandssagan tekur óvænta stefnu.