Opið fyrir umsóknir í styrktarsjóð hafna Ísafjarðarbæjar
12.03.2025
Fréttir

Auglýst er eftir umsóknum um styrki úr styrktarsjóði hafna Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2025.
Markmiðið með sjóðnum er að styrkja og bæta bæjarbraginn og í ár eru 8 milljónir til úthlutunar.
Sjóðurinn er að þessu sinni þrískiptur þar sem styrkja skal viðburðahald, samfélags- eða fegrunarverkefni sem efla samfélagið í Ísafjarðarbæ. Sjóðnum var komið á laggirnar í fyrrasumar og þá var aðeins viðburðahald styrkt, en nú er búið að útvíkka reglur sjóðsins og auka úthlutunarfé.
- Viðburðir
Styrkjum er úthlutað til einstakra viðburða, eða raða viðburða sem haldnir eru í Ísafjarðarbæ árið 2025. Viðburðir mega fara fram á öllum tíma dags og öllum tímum árs. Ekki er krafa um að viðburðir séu þátttakendum að kostnaðarlausu en forgangs njóta ókeypis viðburðir. Ekki eru veittir styrkir til rekstrar‐, stofnkostnaðar‐ eða endurbóta fyrirtækjum þ.m.t. á eignum. - Fegrunarverkefni Verkefni sem miða að fegrun og bættu umhverfi í Ísafjarðarbæ. Til dæmis vegglist, umhverfislist, bættar merkingar húsa og fyrirtækja. Undir þetta fellur ekki almennt viðhald fasteigna.
- Samfélagsverkefni Uppbyggjandi og jákvæð verkefni sem nýtast samfélaginu. Styrkjunum er ætlað að styðja við framtak hópa og einstaklinga sem stuðla að farsæld, lífsgæðum og fjölbreyttu mannlífi. Má þar nefna starfsemi opinna frjálsra félagasamtaka sem vinna í almannaþágu árið um kring.
Hægt er að sækja um styrk að hámarki 800.000 kr. Ekki er krafist mótframlags frá umsækjanda.
Umsóknarfrestur er til 4. apríl kl. 16:00.