Opið bókhald Ísafjarðarbæjar
Ísafjarðarbær hefur nú opnað bókhald sitt upp á gátt í samræmi við nútíma stjórnunarhætti opinberra aðila. Opnað hefur verið fyrir vefsíðu sem heldur utan um og birtir fjárhagsupplýsingar sveitarfélagsins og er tilgangur hennar að svara þar með spurningunum „hvaðan koma peningarnir?“ og „hvert fara þeir?“. Notendur vefjarins fá myndræna, skilvirka og einfalda framsetningu þar sem auðvelt er að fá yfirsýn og svör við helstu spurningum. Þessi vefsíða var unnin í samvinnu við Wise lausnir og mun verða í stöðugri þróun hjá sveitarfélagahópi fyrirtækisins.
Kerfið er hannað í Navision og notast við vöruhús gagna og Microsoft Power BI. Upplýsingarnar eru sóttar beint í bókhaldskerfi Ísafjarðarbæjar og uppfærast jafn óðum. Vefsíðan skiptist í fjórar síður þar sem hægt er að grafa sig niður og sækja ítarlegar upplýsingar. Fyrsta síðan sýnir yfirlit yfir gjöld sem brotin eru niður á svið, þjónustuþætti, einstaka gjaldaliði og lánadrottna. Önnur síðan gefur upplýsingar um þá lánadrottna sem skipt hefur verið við og er hægt að skoða þær eftir sviðum og deildum. Á þriðju síðunni má sjá yfirlit yfir hvert peningarnir fara hjá völdu sviði og eru annars vegar skífurit sem sýna skiptingu gjalda í þjónustuþætti og einstaka gjaldaliði og hins vegar súlurit sem sýnir mánaðarlega kostnaðarskiptingu. Fjórða síðan er eins og þriðja síðan nema hún sýnir hvaðan peningarnir koma.
Á öllum síðunum eru tímasíur og því hægt að skoða upplýsingar aftur í tímann. Þegar núverandi ár er skoðað er um að ræða óendurskoðaðar fjárhæðir og miðast þær við þarsíðustu mánaðamót hverju sinni. Fjárhæðir birtra mánaða núverandi árs geta breyst eftir að þær birtast eftir því sem reikningar berast og leiðréttingar eru gerðar. Hægt er að skoða gögnin aftur til ársins 2010 og er þá um að ræða endurskoðaðar og endanlegar fjárhagsupplýsingar.
Hægt er að takmarka val sitt við nokkra þætti í stað allra og skal þá nota „ctrl“ til að velja viðkomandi þætti. Til að hreinsa val er ýtt á strokleðrið fyrir ofan valgluggana.
Til að skoða opið bókhald Ísafjarðarbæjar þarf að smella á tengil hægra megin á forsíðu vefjar sveitarfélagsins, www.isafjordur.is.