Öll um borð — Afhjúpun heiðursvarða Aldrei fór ég suður

Arna Lára og Kristján Freyr Halldórsson, rokkstjóri Aldrei fór ég suður.
Arna Lára og Kristján Freyr Halldórsson, rokkstjóri Aldrei fór ég suður.

Glæsilegur heiðursvarði hefur verið afhjúpaður í tilefni af 20 ára afmæli rokkhátíðarinnar Aldrei fór ég suður. Heiðursvarðinn er gjöf frá Ísafjarðarbæ til hátíðarinnar og listilega gerður af starfsfólki Ístækni.

Heiðursvarðinn er í formi merkis hátíðarinnar, sem aftur byggir á gamla merki Útvegsbankans, og geta gestir hátíðarinnar farið um borð í bátinn og tekið mynd af sér við hlið sjómannsins sem stendur þar í stafni. Lísbet Harðar Ólafardóttir málaði sjómanninn. 

„Aldrei fór ég suður skiptir Ísafjarðarbæ miklu máli og við erum þakklát fyrir þá gleði og stuð sem hátíðin hefur gefið samfélaginu síðustu 20 árin,“ sagði Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri, við afhjúpunina. „Þess vegna vildum við gefa hátíðinni almennilega afmælisgjöf og ekki er verra að hún nýtist öllum sem heimsækja Ísafjörð, enda verður heiðursvarðinn uppi allt árið um kring.“  

Merkið stendur á gömlu Fagranesbryggjunni, skammt frá Edinborgarhúsinu. Ísafjarðarbær og Aldrei fór ég suður vona að sem flest staldri við og smelli af sér mynd um páskana. Gleðilega hátíð!