Olíuleki á Suðureyri: Upplýsingar af fundi UST og HEVF með skólastjórnendum

Skólastjórnendur á Suðureyri funduðu með fulltrúum Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða fimmtudaginn 10. mars. 

Á fundinum kom fram að það er mat Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirlitsins að mesta hættan vegna olíulekans er liðin hjá. Mesta loftmengunin var líklega föstudaginn 4. mars þegar olían rann í gegnum drenlögn niður í tjörnina og þaðan í höfnina. Megnið af olíunni flaut ofan á vatninu á leið sinni í gegnum tjörnina og sökk ekki til botns í tjörninni.

Eins og fram hefur komið í fréttum varð minni jarðvegsmengun af lekanum en leit út fyrir. Ef olían hefði farið niður í jörðina fyrir ofan skólann hefði það verið miklu stærra mál að skipta um allan jarðveg þar og væntanlega hefði lyktarmengun verið meiri. Það getur samt alltaf verið að einhver olía leynist milli steina og getur þá lykt blossað upp, en það ætti aldrei að vera í miklu mæli.

Fulltrúar Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirlitsins telja það vera óhætt að vera úti en ef íbúar finna olíulykt eigum þeir að gera ráðstafanir, t.d. fara inn eða færa sig af því svæði sem lyktin er. Vindátt hefur mikil áhrif. Ef vart verður við olíufekki í tjörninni þegar lengra líður frá, á að láta heilbrigðiseftirlitið vita og þeir koma þá með ísogsmottur sem sjúga olíuna upp.

Talið er óskynsamlegt að börn séu að leik við tjörnina, þetta gæti jafnvel gilt áfram í sumar.

Að sögn skólastjórnenda verður óskað eftir mengunarmælum ef olíulyktin hverfur ekki smám saman, eins og nú er gert ráð fyrir.