Olíuleki á Suðureyri litinn mjög alvarlegum augum

Olíulekinn sem uppgötvaðist á Suðureyri í síðustu viku var tekinn til umfjöllunar á 1190. fundi bæjarráðs mánudaginn 7. mars. 

Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri, mætti til fundar við bæjarráð til að fara yfir lekann sem hefur orðið úr tanki Orkubús Vestfjarða á Suðureyri, en bæjarstjóri og hafnarstjóri skoðuðu aðstæður á Suðureyri sl. helgi og reyndu að afla upplýsinga hjá eiganda tanksins.

Í bókun bæjarráðs kemur fram að bæjarráð líti málið mjög alvarlegum augum. Kallað var eftir nánari upplýsingum um málið frá hlutaðeigandi aðilum og aðgerðaáætlun um hreinsun. Þá óskaði bæjarráð eftir fundi með Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða, Umhverfisstofnun og Orkubúi Vestfjarða vegna málsins. Sérstaklega var óskað eftir að farið verði yfir verklag vegna umhverfisslysa af þessum toga, þar sem stjórnendur Ísafjarðarbæjar fréttu ekki af málinu fyrr en föstudaginn 4. mars sl., en tilkynningar höfðu þá borist ábyrgðaraðilum, þ.e. Heilbrigðiseftirlitinu og Orkubúi Vestfjarða, um miðjan febrúar.

Að sögn Birgis Gunnarssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar verður því fylgt fast eftir að ráðist verði í þessar viðeigandi ráðstafanir, án tafar.