Óbyggðanefnd: Úrskurðir í þjóðlendumálum
Miðvikudaginn 30. ágúst 2023 kvað óbyggðanefnd upp úrskurði í þjóðlendumálum í Ísafjarðarsýslum.
Kröfur fjármála- og efnahagsráðherra, f.h. ríkisins, um þjóðlendur í Ísafjarðarsýslum tóku alls til 45 skilgreindra svæða og fjallað var um þær í átta málum, nr. 1–8/2021. Á móti bárust 159 kröfulýsingar landeigenda vegna um 190 jarða eða svæða. Að auki kannaði óbyggðanefnd heimildir um merki ýmissa nærliggjandi jarða og svæða og að þeim meðtöldum voru merki meira en 250 jarða eða svæða til skoðunar við rannsókn málanna. Niðurstaða óbyggðanefndar var að hlutar af níu þeirra svæða sem íslenska ríkið gerði kröfu til væru þjóðlendur, þ.e.:
- Hestfjarðaralmenningur
- Skötufjarðaralmenningur
- Almenningur í Ísafirði
- Sá hluti Drangajökuls sem er innan Ísafjarðarsýslna
- Grænahlíð við Ísafjarðardjúp
- Almenningar vestari á Hornströndum
- Hælavíkurbjarg á Hornströndum
- Hornbjarg á Hornströndum
- Hluti Almenninga eystri á Austurströndum
Aftur á móti hafnaði óbyggðanefnd öðrum kröfum íslenska ríkisins í Ísafjarðarsýslum en nánari upplýsingar um ágreiningsmálin og þjóðlendumál almennt eru í viðhengi. Einnig fylgir yfirlitskort um niðurstöður þjóðlendumálanna í Ísafjarðarsýslum
Nákvæmari úrskurðarkort og úrskurðina í heild er að finna á vefsíðu nefndarinnar, undir Úrskurðir og dómar. Á vefsíðunni er einnig að finna upplýsingar um málsmeðferð þjóðlendumála o.fl.
Í þjóðlendumálunum í Ísafjarðarsýslum voru lögð fram alls 6.264 skjöl, að meðtöldum hliðsjónargögnum. Við meðferð málanna var lagt mat á öll fram komin gögn, ágreiningssvæðin skoðuð í vettvangsferð, málin flutt munnlega og skýrslur teknar af aðilum og vitnum.
Frekari upplýsingar eru veittar á skrifstofu óbyggðanefndar:
postur@obyggdanefnd.is, sími: 563 7000.