Nýjar reglur um afslátt af leikskólagjöldum

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á 505. fundi sínum, sem haldinn var þann 28. desember 2022, nýjar reglur um afslátt af leikskólagjöldum. Áður hefur verið í gildi svo kölluð forgangsgjaldskrá sem veitti 35% afslátt af leikskólagjaldi fyrir einstæðra foreldra eða ef báðir foreldrar voru í fullu námi.

Í nýju reglunum er afslátturinn tekjutengdur og geta þeir foreldrar og forráðamenn sem falla undir sett tekjuviðmið sótt um að fá 40% afslátt af leikskólagjöldum, utan fæðisgjalda. Tekjuviðmiðin miða við heildartekjur heimilis og eru eftirfarandi:
Foreldrar/forráðamenn með mánaðartekjur allt að 750.000 kr. eða árslaun 0-9.000.000 kr. Miðað er við meðaltekjur samkvæmt staðgreiðsluskrá fyrir síðustu þrjá mánuði þegar umsókn er send inn.

Reglurnar hafa engin áhrif á systkinaafslátt sem verður áfram óbreyttur. 

Reglurnar taka gildi 1. febrúar 2023 og helst afsláttur sem nú þegar hefur verið samþykktur fyrir árið 2022 til 31. janúar 2023.

Sótt er um afsláttinn í þjónustugátt Ísafjarðarbæjar.

Allar nánari upplýsingar gefur Guðrún Birgisdóttir, skóla og sérkennslufulltrúi á netfanginu gudrunbi@isafjordur.is eða í síma 450 8000.