Nýir rekstraraðilar á tjaldsvæðunum á Flateyri og Ísafirði
Nýir rekstraraðilar hafa tekið við tjaldsvæðunum á Ísafirði og Flateyri. Fyrirtækið Tjald ehf. bauð lægst í rekstur tjaldsvæðisins í Tungudal í Skutulsfirði 2024-2030 og á Flateyri er það Rajath Raj sem mun sjá um reksturinn í sumar.
Tjald ehf. bauð lægst í rekstur tjaldsvæðisins í Tungudal í Skutulsfirði en tilboð voru opnuð í verkið þann 30. apríl. Bæjarstjórn samþykkti tilboðið á 534. fundi sínum þann 16. maí. Tilboðið hljóðar upp á -4.750.000 kr. sem þýðir að að verktakinn greiðir Ísafjarðarbæ fyrir leigu á svæðinu.
Rektsturinn felur í sér að sjá um gjaldtöku á tjaldsvæðinu, þrif á húsnæði, umhirðu svæðisins, garðslátt og ýmsa þjónustu við gesti tjaldsvæðisins. Gistinætur á tjaldsvæðinu síðustu tvö ár hafa verið rúmlega 11.000. Samingstími hófst 15. maí 2024 og lýkur 15. september 2030.
Á Flateyri hefur, sem fyrr segir, verið samið við Rajath Raj um rekstur tjaldsvæðisins í sumar. Í samningi er kveðið á um að leigutaki sinni gjaldtöku og hafi af því tekjur, sjái um þrif á húsnæði, umhirðu svæðisins auk annarrar þjónustu við gesti svæðisins. Eingöngu er samið um rekstur fyrir árið 2024.
Tjaldsvæðið á Flateyri opnar á morgun, fimmtudag, en laga þurfti vatnslagnir og gera úttekt á svæðinu áður en hægt var að bjóða gesti velkomna.