Ný samþykkt um meðhöndlun úrgangs

Samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Ísafjarðarbæ var tekin til síðari umræðu og samþykktar á 518. fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar, sem fram fór fimmtudaginn 7. september.

Ástæða nýrrar samþykktar eru breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs sem tóku gildi um áramótin, en markmið lagannabreytinganna er að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis svo stuðla megi að sjálfbærri auðlindanotkun og draga úr myndun úrgangs. Öll sveitarfélög landsins þurfa að endurskoða stjórntækin sem þau hafa á grundvelli laga um meðhöndlun úrgangs, þ.e.:

  1. Svæðisáætlanir um meðhöndlun úrgangs
  2. Samþykktir um meðhöndlun úrgangs
  3. Gjaldskrár fyrir úrgangsmeðhöndlun

Ný samþykkt um meðhöndlun úrgangs var til vinnslu hjá starfsmönnum sveitarfélagsins á haustdögum 2022, í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga, enda tók Ísafjarðarbær þátt í svokölluðum hraðli við innleiðingu nýju laganna um meðhöndlun úrgangs, sem skyldaði öll sveitarfélög til fjórflokkunarkerfis.

Með þessari vinnu varð Ísafjarðarbær eitt af fyrstu sveitarfélögunum til að innleiða breytingarnar, og hefur í kjölfarið verið fyrirmynd og veitt öðrum sveitarfélögum upplýsingar um ýmiss atriði tengt innleiðingunni.

Samþykktin um meðhöndlun úrgangs, sem að miklu leyti var byggð á fyrirmynd Sambandsins í Handbók um úrgangsmál, var samþykkt í bæjarstjórn 15. desember 2022, og var óskað flýtimeðferðar í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu til birtingar hennar í Stjórnartíðindum fyrir áramót. Ísafjarðarbæ barst ekki svar um samþykktina frá ráðuneytinu fyrr en í lok febrúar 2023, þá með höfnun, þar sem athugasemdir voru gerðar við útfærslu nokkurra ákvæða, sér í lagi ákvæða 7., 9., 13. og 15. gr. Í kjölfarið fór fram frekari vinna starfsmanna Ísafjarðarbæjar, ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga, um frekari útfærslu ákvæða. Uppfærð ný samþykkt var þannig lögð fyrir bæjarstjórn þann 7. september, sem fyrr sagði.

Samþykktin hefur verið send til ráðuneytisins og mun öðlast gildi við birtingu í Stjórnartíðindum. 

Hægt er að lesa samþykktina hér.

Helstu breytingar á samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Ísafjarðarbæ 

Í ljósi lagabreytinganna hafa verið gerðar töluverðar breytingar á samþykkt Ísafjarðarbæjar um meðhöndlun úrgangs. Meðal annars eru markmið samþykktarinnar nú að stuðla að því að meðhöndlun úrgangs í Ísafjarðarbæ valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið, stuðla að endurnotkun og endurnýtingu, lágmörkun kostnaðar samfélagsins og góða þjónustu við íbúa.

Samkvæmt nýju samþykktinni er Ísafjarðarbæ heimilt að innheimta skrefagjald af ílátum undir úrgang við íbúðarhús í þéttbýli sem draga þarf lengra en 15 m að lóðamörkum til losunar í hirðubíl. Þá eru einnig gerðar auknar kröfur um aðgengi að öðru leyti, meðal annars hvað varðar lofthæð og aðgengi í sorpgeymslum. Þegar ekki er unnt að verða við þessum kröfum er umráðamanni sorpíláta heimilt að koma ílátum fyrir á losunarstað hirðubíls á hirðudegi eða við lóðamörk, eftir atvikum, og komast þannig hjá greiðslu aukagjalds.

Þá hafa nákvæmar hömlur um ákveðna kílómetratölu frá aðalbraut sem skilyrði fyrir söfnun úrgangs við íbúðarhús verið teknar út. Frekar er horft til aðstæðna á hverjum stað, s.s. að sorphirðubíll getur ekki komist að húsi eða út í eyju. Þar sem aðstæður bjóða ekki upp á söfnun frá íbúðarhúsnæði skal úrgangi safnað á grenndarstöð. Fyrirhugað er að sama fyrirkomulag verði á einstökum íbúðarhúsum í dreifbýli og áður, en komi upp mál þar sem óskað er breytinga skal nefndin vera í samráði við heilbrigðiseftirlit um mat á aðstæðum.