Númerslausir bílar

Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða límdi nýverið viðvörunarmiða á tugi númerlausra bíla í Ísafjarðarbæ. Athygli er vakin á því að ekki er einvörðungu límt á númerslausa bíla sem standa við götur og á opnum svæðum (bæjarlandinu) heldur er einnig límt á númerslausa bíla á einkalóðum ef þeir eru til lýta og/eða valda mengunarhættu fyrir umhverfið.

Búið er að líma á rúmlega 40 bíla og eru eigendur þeirra hvattir til að fjarlægja þá eða koma þeim á númer, ella verða bílarnir fjarlægðir og þeim komið til geymslu í 30 daga. Séu bílarnir ekki leystir út, verða þeir seldir eða eftir atvikum komið til förgunar. Umtalsverður kostnaður getur fallið á eigendur bílanna fari málin svo langt.

Heilbrigðiseftirlitið og Ísafjarðarbær munu áfram beina sjónum sínum að númerslausum bílum og mega eigendur númerslausra bíla búast við að þeir verði fjarlægðir bregðist þeir ekki við.

Heilbrigðisnefnd er heimilt að fjarlægja skráningarskyld ökutæki án skráningarmerkja, tæki, kerrur, vinnuvélar, báta og aðra lausamuni og drasl á kostnað og ábyrgð eiganda að undangenginni viðvörun samkvæmt 7. grein samþykktar um umgengni og þrifnað utan húss á starfssvæði heilbrigðisnefndar Vestfjarða.

Einnig er kveðið á um heimild heilbrigðisnefndar til að láta fjarlægja lausamuni, númerslausar bifreiðar, bílflök og sambærilega hluti í 21. grein reglugerðar um hollustuhætti 941/2002.

Valdsvið og þvingunarúrræði heilbrigðiseftirlits er tilgreint í 60. og 61. gr. í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.