Mokast hægt en mokast þó
Það á eftir að taka tíma að hreinsa snjó á Ísafirði eftir sendingu helgarinnar. Mokstur gengur hægt, bæði er ofboðslega mikið af snjó og svo er hann þungur og þjappaður. Eins og venjulega var lögð áhersla á leiðir í forgangi 1 í gær og í dag, en gert er ráð fyrir að byrja mögulega eitthvað á forgangi 2 núna seinni partinn. Götur í forgangi 3, þ.e.a.s. vel flestar íbúagötur, þurfa að bíða enn um sinn.
Nýttar eru allar þrjár gröfur áhaldahússins og þrír verktakar eins og staðan er núna. Það hjálpar ekki til að spáð er öðru snjóskoti í fyrramálið og svo einu til seinni partinn á miðvikudag, svo íbúar mega búa sig undir talsvert vesen næstu daga.
Við bendum á snjómokstursreglur Ísafjarðarbæjar þar sem sjá má hvar í forgangsröðinni einstaka götur eru. Í einstaka undantekningatilfellum þarf að víkja útfrá þessum reglum ef sérstakar aðstæður koma upp, en almennt ættu þær að halda.