Mikið um að vera á bókasöfnum Ísafjarðar

Mikið verður um að vera á bókasöfnum á Ísafirði næstu daga. Á morgun, föstudaginn 16. nóvember, verður bókasafnadagur á Bæjar- og héraðsbókasafninu, bókasafni Grunnskólans á Ísafirði og bókasafni Menntaskólans á Ísafirði. Milli klukkan 15.00 og 15.50 verður opið hús, upplestur og léttar veitingar á bókasafni GÍ, en klukkan 16.00-16.50 verður það sama uppi á teningnum á bókasafni Menntaskólans. Milli klukkan 17 og 18 mætir Sævar Helgi Bragason, betur þekktur sem „Stjörnu-Sævar“, til leiks í Bókasafninu á Ísafirði og ræðir um leitina að lífi í geimnum. Allir eru velkomnir og þeir sem mæta á öll söfnin geta safnað stimplum á geimverukort og átt þar með möguleika á bókavinningi.

Degi síðar, laugardaginn 17. nóvember kl. 13-14, verður náttfatasögustund í barnadeild Bókasafnsins. Börn og foreldrar eru hvött til að mæta á náttfötunum og eiga saman notalega stund. Lesnar verða sögur fyrir börnin og boðið upp á léttar, barnvænar veitingar. Um að gera að leyfa bangsa að koma með.