Menningarstefna Ísafjarðarbæjar samþykkt
Bæjarstjórn samþykkti nýja menningarstefnu Ísafjarðarbæjar á 493. fundi sínum þann 7. apríl. Stefnan gildir frá 2022-2032 og lýsir aðkomu sveitarfélagsins að málefnum lista og menningar. Henni er ætlað að nýtast yfirvöldum við frekari umræðu og ákvarðanatöku í menningarmálum.
Menningarstefna Ísafjarðarbæjar 2022-2032
Sumarið 2021 samþykkti bæjarráð að farið yrði í vinnu við gerð menningarstefnu og að gert væri ráð fyrir fjármagni til þess í fjárhagsáætlun 2022. Í febrúar 2022 komu Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu og Skúli Gautason, menningarfulltrúi Vestfjarðastofu til umræðu við menningarmálanefnd um málið og var tekin ákvörðun um tímalínu og tilhögun verkefnisins sem var leitt áfram af Skúla. Stýrihópur og samráðshópur voru myndaðir í kringum verkefnið.
Í upphafi vinnunnar var gerð fjárhagsgreining um stöðu menningarmála hjá sveitarfélaginu, þ.e. hvert fjármagn frá sveitarsjóði rennur. Þá voru menningarmál í Ísafjarðabæ, bæði hjá sveitarfélaginu sjálfu og einkaaðilum, kortlögð, allt til þess að fá yfirsýn yfir hvað nú er gert svo hægt væri að átta sig á hvert vilji er til að stefna. Aðrar menningarstefnur voru hafðar til hliðsjónar við gerð menningarstefnu Ísafjarðarbæjar, s.s. ný menningarstefna Íslands, Reykjavíkurborgar, og annarra sveitafélaga, auk þess sem horft var til Aðalskipulags Ísafjarðarbæjar, sem grunnstef ákvarðanatöku þegar horft er til framtíðar.
Samráðshópurinn kom saman á þremur vinnufundum vegna gerð stefnunnar. Vinna samráðshóps fólst í því að móta stefnu sveitarfélagsins, þá sýn sem samfélag okkar í Ísafjarðarbæ vill sjá til framtíðar; listafólk, menningarfólk, hagsmunaaðilar, starfsmenn og stjórnarmenn stofnana, kjörnir fulltrúar, íbúar, gestir og aðrir. Þá var opnaður hugmyndabanki í gengum vefsíðuna Betra Ísland.
Þann 24. mars 2022 var haldinn opinn íbúafundur í Safnahúsinu á Ísafirði til kynningar og samráðs um stefnuna. Í kjölfarið var farið yfir niðurstöður, umsagnir og tillögur og að því loknu voru lokadrög stefnunnar kynnt fyrir menningarmálanefnd, sem fyrr segir.
Fyrirhugað er að vinna innleiðingar- og aðgerðaáætlun út frá stefnunni sem lögð verður fram til samþykktar hjá nýrri bæjarstjórn haustið 2022. Hugmyndabankinn verður áfram opinn og þar verður hægt að setja inn hugmyndir fyrir aðgerðaáætlun.
Í stýrihópnum sátu Ásgerður Þorleifsdóttir, formaður menningarmálanefndar, Bryndís Ósk Jónsdóttir, sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs og starfsmaður menningarmálanefndar, og Tinna Ólafsdóttir, upplýsingafulltrúi. Í samráðshóp voru valdir einstaklingar með fjölbreyttan bakgrunn á sviðum lista, menningar og skapandi greina, frá öllum byggðakjörnum Ísafjarðarbæjar.
Eftirtalin sátu fundi samráðshóps, einn eða fleiri: Bergþór Pálsson, Birta Bjargardóttir, Catherine Chambers, Edda B. Kristmundsdóttir, Eiríkur Örn Norðdahl, Elfar Logi Hannesson, Elísabet Gunnarsdóttir, Eyþór Jóvinsson, Finney Rakel Árnadóttir, Guðfinna M. Hreiðarsdóttir, Halldóra Jónasdóttir, Inga María Guðmundsdóttir, Ingi Björn Guðnason, Jón Sigurpálsson, Jóna Símonía Bjarnadóttir, Katrín Gísladóttir, Steinþór Bjarni Kristjánsson og Sædís Þórsdóttir. Verkefnastjóri var Skúli Gautason, menningarfulltrúi Vestfjarðastofu.