Lýsing fyrir gerð strandsvæðisskipulags á Vestfjörðum í kynningu
Svæðisráð um strandsvæðisskipulag á Vestfjörðum auglýsir lýsingu fyrir gerð strandsvæðisskipulagsins. Þar er gerð grein fyrir hvernig fyrirhugað er að standa að vinnu við gerð strandsvæðisskipulagsins. Lýsingin er aðgengileg hjá Skipulagsstofnun og á hafskipulag.is frá 7. maí til 1. júní. Nálgast má prentað eintak hjá Skipulagsstofnun.
Lýsing fyrir gerð strandsvæðisskipulags á Vestfjörðum.
Allir eru hvattir til að kynna sér efni lýsingarinnar og koma á framfæri ábendingum um nálgun og efnistök í skipulagsvinnunni. Ábendingar þurfa að vera skriflegar og má koma á framfæri bréfleiðis til Skipulagsstofnunar, með tölvupósti á hafskipulag@skipulag.is eða á athugasemdagátt á hafskipulag.is. Frestur til að koma á framfæri ábendingum er til 1. júní 2020.
Lýsing er kynnt samkvæmt 11. gr. laga um skipulag haf- og strandsvæða.
Samráðsvefsjá
Opnuð hefur verið samráðsvefsjá um gerð strandsvæðisskipulags á Austfjörðum og Vestfjörðum. Þar er hægt er að koma á framfæri upplýsingum um hvernig svæðin eru nýtt til afþreyingar, ferðaþjónustu og nytja ásamt áherslum varðandi styrkleika svæðanna, áskoranir og tækifæri. Allir eru hvattir til þess að taka þátt. Vefsjáin verður opin til 4. júní. Upplýsingar sem safnast í gegnum vefsjánna verða nýttar í vinnunni framundan við gerð strandsvæðisskipulags á Austfjörðum og Vestfjörðum.
Kynningarfundur
Fyrirhuguð vinna við gerð strandsvæðisskipulags á Vestfjörðum verður kynnt á veffundi sem streymt verður á Facebook-síðu Skipulagsstofnunar þann 12. maí kl. 15:00.
Allir sem hafa áhuga eru hvattir til að taka þátt í fundunum. Nánari upplýsingar um fundina eru á hafskipulag.is.
Til stóð að halda samráðsfundi samhliða kynningu á lýsingu en vegna samkomutakmarkana hefur þeim verið frestað. Samráðsfundirnir verða haldnir haustið 2020 og verða þeir auglýstir þegar nær dregur. Á fundunum verður þátttakendum boðið til samtals um stöðu svæðisins, styrkleika og áskoranir og leitað eftir ábendingum þátttakenda um núverandi og framtíðar nýtingu þess. Fundirnir verða öllum opnir.
Hafskipulag.is
Jafnframt er athygli vakin á að á nýju vefsvæði skipulags á haf- og strandsvæðum, hafskipulag.is má nálgast frekari upplýsingar um skipulag á haf- og strandsvæðum ásamt gerð strandsvæðisskipulags og framvindu vinnunnar á hvoru svæði.