Lýsing fyrir gerð deiliskipulagstillögu ofanflóðavarna í Hnífsdal, Ísafjarðarbæ
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt lýsingu fyrir ofanflóðavarnir í sunnanverðum Hnífsdal í Ísafjarðarbæ skv. 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Í aðgerðaráætlun Ísafjarðar vegna snjóflóðavarna í Skutulsfirði og Hnífsdal sem var samþykkt á 147. fundi bæjarstjórnar 25. september 2003, er gert ráð fyrir að öryggi verði tryggt með varnarvirkjum en ekki uppkaupum. Suðurhluti Hnífsdals, þar sem skipulagssvæðið liggur, er síðast í forgangsröðun um varnir fyrir sex hverfi Ísafjarðarbæjar.
Tillaga að deiliskipulagi ofanflóðavarna í Hnífsdal liggur sunnan við Dalbraut og að lóðarmörkum Bakkavegar, Hlégerðis og að núverandi deiliskipulagssvæði við Skólaveg-Dalbraut.
Íbúðabyggð og atvinnuhúsnæði er að finna í norðaustur hluta deiliskipulagssvæðisins sem tilheyrir þéttbýli Hnífsdals. Deiliskipulagssvæðið er um 83 ha að stærð og stærstur hluti svæðisins er ósnert fjalllendi en neðan þess og norður að Heiðarbraut er að finna graslendi og skógrækt. Aðkoma að svæðinu liggur um Heiðarbraut, Dalbraut og Hreggnasa.
Fyrirhugaðar snjóflóðavarnir eru tilkynningaskyldar til ákvörðunar um matsskýrslu skv. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.
Í deiliskipulagslýsingu kemur lögum samkvæmt fram hvaða áherslur sveitarstjórn hefur við skipulagsgerðina og upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli s.s. um kynningu og samráð gagnvart íbúum og öðrum hagsmunaaðilum. Þeir sem vilja kynna sér málið nánar vinsamlegast hafið samband við skipulagsfulltrúa
Lýsinguna má finna hér.
Öllum er heimilt að skila ábendingum við lýsingu þessa til skipulagsfulltrúa Ísafjarðarbæjar, Stjórnsýsluhúsinu, Hafnarstræti 1, 400 Ísafjörður eða á netfangið: axelov@isafjordur.is fyrir 19. nóvember 2019.