LRÓ er 25 ára í dag
Listaskóli Rögnvaldar Ólafssonar er 25 ára í dag. Af því tilefni verður boðið upp á kabarettsýningar klukkan 18 í dag, miðvikudag, og á morgun, fimmtudag. Þar verða m.a. flutt lög úr ýmsum söngleikjum eins og Cabaret, Sound of music, Mary Poppins og My fair lady. Eldri píanónemendur, kennarar og velunnarar skólans skipa hljómsveitina, söngnemendur syngja og dansarar frá 9 ára aldri koma fram. Sýningarnar verða í Edinborgarsal og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Listaskólinn var stofnaður árið 1993 og voru aðstandendur hans frumkvöðlar í því að bjóða upp á kennslu í gjörólíkum listgreinum undir sama þaki, form sem aðrir skólar hafa nú tekið upp. Ótal listagreinar hafa verið kenndar við skólann. Tónlistar- og listdanskennsla hefur verið aðalsmerki skólans á síðustu árum, en boðið hefur verið upp á fjölmörg námskeið, m.a. í myndlist.
Ísafjarðarbær óskar aðstandendum Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar hjartanlega til hamingju með afmælið.