Lokað fyrir boðgreiðslukerfi Ísafjarðarbæjar frá næstu áramótum
Hér með tilkynnist að boðgreiðslukerfi Ísafjarðarbæjar verður lokað frá áramótum 2022/2023.
Boðgreiðslur hafa verið í boði fyrir viðskiptamenn Ísafjarðarbæjar í fjölda ára, en kerfið var sett upp á síðustu öld áður en netbankar komu til sögunnar og viðskiptamenn þurftu að gera sér ferð í viðskiptabanka á dagvinnutíma til að greiða reikninga. Boðgreiðslur voru því mikilvæg leið hér áður fyrr til að auðvelda viðskiptavinum að greiða reikninga án mikillar fyrirhafnar.
Á síðustu árum hafa ýmsar tæknilausnir komið fram, og þá sérstaklega með tilkomu netbanka viðskiptabankanna. Nú geta greiðendur séð um greiðslu reikninga á auðveldan hátt í gegnum netbanka eða í gegnum greiðsluþjónustu viðskiptabanka, hvenær sem er sólarhringsins.
Boðgreiðslukerfi hafa umtalsverðan kostnað í för með sér fyrir sveitarfélagið. Á 499. fundi bæjarstjórnar, þann 6. október 2022, var því samþykkt tillaga um að hætta með þjónustu vegna boðgreiðslna frá og með 1. janúar 2023.
Reikningar frá sveitarfélaginu munu áfram berast sem krafa í heimabanka, og er því beint til notanda að skoða aðrar lausnir við greiðslu reikninga, s.s. í gegnum netbanka, greiðsluþjónustu eða beingreiðslur í gegnum viðskiptabanka, svo ekki hljótist kostnaður vegna greiðsludráttar í kjölfar lokunar þjónustunnar.
Ef frekari upplýsinga er óskað er hægt að hafa samband við innheimtufulltrúa á innheimta@isafjordur.is.