Lífrænn úrgangur: Flokkum rétt
Íbúar Ísafjarðarbæjar eru áfram duglegir við að flokka lífrænan úrgang og í janúar var rúmum 11 tonnum af lífrænum úrgangi safnað úr tunnum íbúa. Við vinnslu þessa lífræna úrgangs hefur þó komið í ljós að með því slæðist allt of oft rusl sem ekki er jarðgeranlegt og á þar með heima í öðrum tunnum. Að mestu leyti eru þetta plastumbúðir utan um matvöru, en það er eingöngu matvaran sjálf sem á að fara í lífræna ruslið, plastið á að fara í minna hólfið í endurvinnslutunnunni.
Lífræna ruslið er nýtt til moltugerðar og við vinnslu er úrgangurinn tættur. Ef plast er með í pokunum tætist það einnig í sundur og nær ómögulegt er þá að ná því úr blöndunni. Þetta gerir moltuna ónothæfa. Íbúar eru því hvattir til að vanda sig við flokkun og að gæta þess að nota alltaf grænu pokana undir lífrænan úrgang.
Verktaki sorphirðu dreifir tveimur rúllum af grænum pokum fyrir lífrænan eldhúsúrgang til íbúa á ári. Ef pokarnir klárast er hægt að kaupa 8 lítra niðurbrjótanlega poka í matvöruverslunum sem passa í grænu körfuna. Niðurbrjótanlegir innkaupapokar henta ekki til moltugerðar þar sem þeir brotna hægt niður.