Lífræn og sjálfbær eyðing kerfils
Á næstunni verður á Suðureyri farið í tilraunir með „lífræna og sjálfbæra eyðingu kerfils“, svo farið sé alla leið í skrúðmælgi. Á mannamáli þýðir þetta að tveimur ám og fjórum lömbum verður beitt á lítið svæði ofan við Aðalgötu 27 og 29. Féð verður að sjálfsögðu innan girðingar og gert hefur verið samkomulag við vaktmann sem býr í beinni sjónlínu við reitinn svo hægt verði að gera tafarlausar ráðstafanir ef frelsisþörfin verður kerfillystinni yfirsterkari.
Einföld rafmagnsgirðing verður sett utan um reitinn, en svo gæti hæglega farið að féð beri óttablandna virðingu fyrir girðingunni án þess að spenna sé á henni. Þurfi að hafa spennu verður hún ekki skaðleg fólki heldur í mesta lagi pirrandi, og í öllu falli betri kostur en gaddavír.
Skilti verður sett upp til útskýringar bæði fyrir íbúa og gesti. Það er einlæg von okkar að Súgfirðingar taki þessari tilraun vel, en ef hún tekst þá höfum við fengið öflugt en krúttlegt vopn í hendurnar í baráttu okkar við kerfilinn.