Leikskólar: Staða biðlista á Ísafirði

24 börn fædd árið 2022 eru á biðlista eftir leikskólaplássi á Ísafirði en fimm börn fædd sama ár hafa þegar hafið eða eru að hefja leikskólagöngu sína. Þetta kemur fram í samantekt um stöðu leikskólamála í Skutulsfirði sem lögð var fram á fundi fræðslunefndar þann 13. apríl.

Gert er ráð fyrir að foreldrar barna sem fædd eru 2022 og hafa sótt um leikskólapláss, fái boð nú í apríl um að þau hefji leikskólagöngu í ágúst-desember 2023.

Auk þessara 24 barna sem fæddust á síðasta ári og eru á biðlista, eru þrjú börn sem fædd eru árið 2021 sem hafa fengið boð um leikskólavist, en forráðamenn afþökkuðu og vilja bíða þar til eftir sumarlokanir leikskólanna.

Eftir sumarlokun leikskólanna Sólborgar og Eyrarskjóls flytjast 44 fimm ára börn yfir á leikskólann Tanga, 22 börn af Eyrarskjóli og 22 börn af Sólborg.