Leikskólar: Fjölga þarf leikskólaplássum á Ísafirði

Leikskólinn Sólborg á Ísafirði.
Leikskólinn Sólborg á Ísafirði.

Hafdís Gunnarsdóttir, sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs, hefur lagt til að vinna við að skoða hvernig best verði staðið að því að fjölga leikskólaplássum á Ísafirði hefjist sem fyrst.

Þetta kemur fram í minnisblaði um stöðu leikskólamála í Skutulsfirði sem lagt var fram á 1197. fundi bæjarráðs þann 2. maí 2022. Sú ánægjulega þróun hefur átt sér stað að leikskólabörnum hefur fjölgað töluvert á Ísafirði en árið 2020 lauk framkvæmdum á viðbyggingu við leikskólann Eyrarskjól, sem fjölgaði leikskólaplássum í Skutulsfirði um u.þ.b. 25. Í framhaldinu setti Ísafjarðarbær sér nýja stefnu um að bjóða öllum börnum leikskólapláss frá 12 mánaða aldri og hefur það gengið eftir að mestu leyti hingað til.

Í dag eru 202 börn á leikskólunum Sólborg og Eyrarskjóli, fædd árin 2016-2021.

Fæðingarár Fjöldi barna
2016 38
2017 37
2018 45
2019 36
2020 33
2021 13

Ekki eru öll börn fædd 2020 og 2021 byrjuð á leikskóla, annað hvort vegna þess að foreldrar þeirra hafa kosið að hafa þau lengur heima eða þeim hefur ekki enn verið úthlutað plássi.

Eftir sumarfríið hjá leikskólunum á Ísafirði munu 37 börn færast af Sólborg og Eyrarskjóli yfir á leikskóladeildina Tanga, sem hugsuð er fyrir börn á sínu síðasta ári í leikskóla. Tvö börn sem eru að flytja á Ísafjörð bætast við á deildina í haust og því verða börnin á Tanga 39 talsins næsta vetur.

Í minnisblaðinu kemur fram að þegar búið verður að taka inn börn á leikskólana í maí 2022 verða öll leikskólapláss fullnýtt og ekki hægt að bjóða pláss að nýju fyrr en eftir sumarleyfi. Einnig kemur fram að miðað við fjölda barna í hverjum árgangi er ljóst að frá næstu áramótum verður ekki hægt að taka inn fleiri börn á leikskólana fyrr en eftir sumarleyfi 2023, sem þýðir að elstu börnin fædd 2022 verða orðin 18-19 mánaða gömul þegar þau komast að á leikskóla. Sem fyrr segir leggur sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs til að vinna verði hafin við skoðun á þvi hvernig má fjölga leikskólaplássum svo hægt sé að viðhalda stefnu bæjarins að bjóða börnum áfram pláss á leikskóla frá 12 mánaða aldri.