Leikskóladeildin Tangi verður sjálfstæður leikskóli

Bæjarstjórn hefur samþykkt tillögu fræðslunefndar um að leikskóladeildin Tangi á Ísafirði, sem tilheyrt hefur leikskólanum Sólborg, verði sjálfstæður leikskóli fyrir fimm ára börn.

Leikskóladeildin Tangi hefur undanfarin sex ár verið rekin undir leikskólanum Sólborg, þó ekki í sama húsnæði, en Tangi er í kjallara á Austurvegi 11. Þar sameinast öll fimm ára börn á Ísafirði og Hnífsdal í eina deild síðasta árið áður en þau byrja í grunnskóla. 

Í minnisblaði Hafdísar Gunnarsdóttur, sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs, kemur fram að ein af ástæðum fyrirhugaðra breytinga er að það er bæði snúið og slítandi að reka leikskóla sem staðsettur er á tveimur mismunandi stöðum meðal annars þar sem ákveðnir starfsmenn, svo sem leikskólastjóri og sérkennslustjóri, þurfa að fara mikið á milli þessara tveggja staða. 

Að mati stjórnenda er Tangi vel mannaður og starfsólk tilbúið að stíga þau skref sem þarf til að verða sjálfstæður leikskóli.

Í minnisblaðinu kemur fram að til að Tangi geti verið sjálfstæður leikskóli þarf að gera minniháttar skipulagsbreytingar. Ráða þarf leikskólastjóra á Tanga og fækka deildarstjórum úr tveimur í einn. Á Sólborg þarf að gera nýja ráðningarsamninga við leikskólastjórnendur sem miðast við að þar verði færri börn eftir að Tangabörnin verð tekin úr menginu. Við þær breytingar lækka laun stjórnenda á 
Sólborg en á sama tíma minnkar álagið og meiri tími gefst í faglegt starf. Í heildina kostar þessi breyting um það bil 130.000 kr. á ári.

Minnisblað sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs