Kristján Arnar Ingason ráðinn skólastjóri Grunnskólans á Ísafirði
Kristján Arnar Ingason hefur verið ráðinn skólastjóri við Grunnskólann á Ísafirði og mun hefja störf við upphaf næsta skólaárs þann 1. ágúst næstkomandi.
Kristján lauk stúdentsprófi af uppeldisbraut frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti 1998. Árið 2002 lauk hann svo B.Ed prófi til kennsluréttinda frá Kennaraháskóla Íslands. Um þessar mundir leggur Kristján stund á meistaranám í stjórnun menntastofnana og auk þessa hefur hann aflað sér UEFA-B þjálfaragráðu frá Evrópska knattspyrnusambandinu og KSÍ-5 þjálfaragráðu frá Knattspyrnusambandi Íslands.
Kristján hefur 20 ára kennslureynslu en frá 2018 hefur hann starfað sem umsjónar- og faggreinakennari á eldra stigi og sem verkefnastjóri FabLab í Fellaskóla. Hann hefur jafnframt starfað tímabundið sem stigsstjóri eldra stigs, samhliða kennslu við skólann. Kristján starfaði sem deildarstjóri og umsjónarkennari við Birkimelsskóla og Patreksskóla árin 2016-2018 og þar áður sem fagstjóri og umsjónarkennari í Réttarholtsskóla árin 2002 til 2016. Á því tímabili (2008-2009) tók hann jafnframt að sér starf deildarstjóra unglingadeildar í Sæmundarskóla.
Við bjóðum Kristján hjartanlega velkominn til starfa.