Kristín Þóra Guðbjartsdóttir ráðin til Listasafns Ísafjarðar
Kristín Þóra Guðbjartsdóttir hefur verið ráðin sem starfsmaður Listasafns Ísafjarðar. Kristín Þóra er með M. Art. Ed. í listkennslu frá Listaháskóla Íslands, B.A. gráðu frá textíldeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands og B.A. gráðu í grafískri hönnun frá sama skóla. Hún stundaði framhaldsnám við Fachhochschule Hamburg, Fachbereich Gestaltung og hefur lokið námi í ljósmyndun við Tækniskólann.
Kristín Þóra starfaði sem verkefnastjóri sýninga og miðlunar við Menningarmiðstöðina Gerðubergi og sem verkefnastjóri fræðslu og miðlunar á Listasafni Árnesinga. Þá hefur hún mótað verkefni í tengslum við Barnamenningarhátíð og haldið fjölskyldusmiðjur á vegum Þjóðminjasafns Íslands, Listasafns Íslands, Menningarnætur í Reykjavík o.fl. Sem grafískur hönnuður hefur Kristín Þóra hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir hönnun sína.
Við bjóðum Kristínu Þóru hjartanlega velkomna til starfa.