Könnun um framtíð Sundhallarinnar
Hafin er könnun á vegum Ísafjarðarbæjar um endurbætur á Sundhöll Ísafjarðar og frekari valkosti í uppbyggingu sundlauga og líkamsræktaraðstöðu í Skutulsfirði. Könnunin er lögð fyrir alla íbúa bæjarins sem hafa náð 18 ára aldri og sér Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um framkvæmd hennar. Um 15 mínútur tekur að svara könnuninni og verður hún opin í tvær vikur.
Markmið könnunarinnar er að kanna viðhorf íbúa til Sundhallar Ísafjarðar og hvernig íbúar sjá framtíð hennar fyrir sér. Niðurstöðurnar verða nýttar til að ákveða framtíð Sundhallarinnar.
Nöfn þátttakenda munu hvergi koma fram við úrvinnslu gagna og Félagsvísindastofnun gætir þess að útilokað verður að rekja svör til einstaklinga. Framlag íbúa er mjög mikilvægt til að niðurstöður könnunarinnar verði sem áreiðanlegastar.
Taka má þátt í könnuninni á Íslensku eða Pólsku.
Könnunina má nálgast á vef Félagsvísindastofnunar, http://fel.hi.is/kannanir. Þar má, áður en hafist er handa við að svara könnuninni, nálgast vinningstillögu að endurbótum Sundhallarinnar og teikningar að líkamsræktarstöð sem önnur hæð íþróttahússins á Torfnesi. Við hvetjum fólk til að kynna sér gögnin til hlítar.