Katla Vigdís bæjarlistamaður 2021
Tónlistarkonan Katla Vigdís Vernharðsdóttir hefur verið útnefnd bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar 2021. Athöfnin fór fram á opnum degi Tónlistarskóla Ísafjarðar sem var hluti af lista- og menningarhátíðinni Veturnóttum.
Katla Vigdís Vernharðsdóttir er 19 ára gömul, fædd 17. júní 2002. Hún er frá Suðureyri og vakti fyrst athygli á landsvísu þegar hún sigraði Músíktilraunir 2017, með hljómsveitinni Between Mountains. Hljómsveitin var einnig valin Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum sama ár.
Between Mountains var dúett en er núna einkaverkefni Kötlu. Hún er einnig í hljómsveitinni Celebs með bræðrum sínum.
Katla gekk í Menntaskólann á Ísafirði og Tónlistarskóla Ísafjarðar en stundar nú nám við Listaháskóla Íslands. Hún stefnir að plötuútgáfu á næsta ári.
Rökstuðningur menningarnefndar fyrir valinu í ár var meðal annars að Katla Vigdís hefur þrátt fyrir ungan aldur þegar starfað við og vakið mikla athygli fyrir listköpun sína í mörg ár. Nefndin vonar að þessi útnefning sé hvetjandi fyrir Kötlu til að halda áfram á sömu braut.