Jólakveðja frá bæjarstjóra
Nú þegar árið er að renna sitt skeið er gott að líta aðeins um öxl. Árið 2022 hefur verið viðburðaríkt Í Ísafjarðarbæ og unnið er að margvíslegum verkefnum til hagsbóta fyrir bæjarbúa.
Ný bæjarstjórn var kosin í maí eftir snarpa og málefnalega kosningarbaráttu. Góður andi er meðal bæjarfulltrúa og samstarf sem byggir á trausti og virðingu. Við erum samstíga í að vilja gera betur og þróa Ísafjarðarbæ áfram. Þar leggja allir sitt af mörkum.
Það er mikilvægt að horfa til framtíðar. Við erum að taka á fjármálum bæjarins með margvíslegum aðgerðum sem gerir okkur kleift að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem er framundan af meiri krafti.
Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn fyrir hönd Ísafjarðarbæjar.
Íbúum er að fjölga. Útsvartekjur eru að vaxa mikið. Það er mikill vöxtur í atvinnulífinu sem kallar á stórar fjárfestingar, til að mynda í fiskeldi og ferðaþjónustu auk annarra atvinnugreina. Það er verið að byggja nemendagarða á Flateyri og á Ísafirði. Uppbygging á Sundabakka er langt komin og unnið er að nýju skipulagi á Suðurtanga. Allt skilar þetta sér í öflugra samfélagi og vaxandi bæjarfélagi.
Hvert nýtt ár felur í sér ný tækifæri fyrir bæinn okkar sem heldur áfram að vaxa og dafna. Við bjóðum nýja íbúa velkomna til að njóta þess sem Ísafjarðarbær hefur að bjóða, hvort sem fólk kemur frá öðrum landshlutum, nágrannalöndum okkar eða framandi slóðum. Ég bind vonir við að nýja árið verði okkur gæfuríkt og muni styrkja Ísafjarðarbæ á allan hátt.
Það eru rúmir sex mánuðir síðan ég tók við sem bæjarstjóri. Það er óhætt að segja að tíminn flýgur áfram og ekki síst þegar unnið er að skemmtilegum verkefnum, með frábæru fólki. Það eru mikil forréttindi að fá að starfa fyrir íbúa Ísafjarðarbæjar.
Kæru íbúar og vinir. Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári og þakka ykkur fyrir gott og innihaldsríkt samstarf á árinu sem er að líða.