Ísafjörður: Verndarsvæði í byggð og íbúakönnun
Í undirbúningi er tillaga til mennta- og menningarmálaráðherra um að Neðstikaupstaður og gamli bærinn á Skutulsfjarðareyri verði gerð að verndarsvæði í byggð, á grundvelli nýlegra laga um verndarsvæði í byggð. Skipaður hefur verið stýrihópur til að vinna að tillögunni en þar sitja fulltrúar Ísafjarðarbæjar og Byggðasafns Vestfjarða. Þá hefur ráðgjafafyrirtækið Alta einnig verið fengið til aðstoðar við undirbúning.
Nú hefur verið settur í loftið sérstakur vefur, verndarsvaedi.isafjordur.is, þar sem hægt er að fræðast um verkefnið og fylgjast með framgangi þess. Auk þess er þar hægt að taka þátt í íbúakönnun þar sem íbúum gefst kostur á að koma sjónarmiðum sínum um þróun og verndun byggðarinnar á framfæri. Í könnuninni er einnig spurt að því hvort íbúar búi yfir sérstökum upplýsingum um stök hús eða byggðina sem heild.
Svör úr könnuninni verða ekki aðeins nýtt við gerð tillögu um verndarsvæði i byggð heldur einnig við gerð húsakönnunar.