Ísafjörður: Tilraunaverkefni um göngugötu í Hafnarstræti

Bæjarráð, skipulags- og mannvirkjanefnd og umhverfis- og framkvæmdanefnd hafa tekið vel í tillögur formanns bæjarráðs um tilraunaverkefni um göngugötu í Hafnarstræti á Ísafirði þá daga sem margir farþegar skemmtiferðaskipa eru í bænum.

Tillagan snýr að því að umferð um Hafnarstræti verði takmörkuð frá gatnamótum Hafnarstrætis og Norðurvegs, til móts við Hamraborg, frá klukkan 9-15 þá daga sem fjöldi gesta af skemmtiferðaskipum er 5000 manns eða fleiri. Undandþegin lokuninni er umferð vegna aksturs fatlaðra og vörulosunar. Markmið lokunarinnar er að bæta bæjarbraginn og auka umferðaröryggi þá daga sem flestir gestir eru í bænum. Samkvæmt áætlun um komu skemmtiferðaskipa 2023 eru þetta fjórir dagar það sem eftir lifir sumars:

  • 13. ágúst
  • 15. ágúst
  • 18. ágúst
  • 19. ágúst
Til stóð að fyrsti dagur tímabundinnar götulokunar í Hafnarstræti á Ísafirði yrði þann 7. júlí en þar sem stærsta skipið sem átti að koma þann dag afboðaði komu sína verða gestir um 2.700 talsins og þar með undir markinu sem miðað er við til að loka götunni.

Bæjarstjóri hefur kynnt hugmyndina sérstaklega fyrir eigendum verslana og veitingastaða og öðrum rekstraraðilum í miðbænum og er fyrirhugað að funda með þeim í lok sumars til að fara yfir reynsluna af lokuninni.

Fréttin var uppfærð 6. júlí.