Fasteignir Ísafjarðarbæjar: Ísafjarðarbær veitir stofnframlag vegna kaupa Brákar á 20 íbúðum

Ísafjarðarbær mun veita stofnframlög vegna kaupa Brákar íbúðafélags á 20 íbúðum í eigu Fasteigna Ísafjarðarbæjar, níu íbúðum við Fjarðargötu 30 á Þingeyri og á ellefu íbúðum við Túngötu á Suðureyri. Stofnvirði íbúðanna er samtals um 327 m.kr. 

Gert er ráð fyrir að Brák taki yfir leigusamninga og aðrar skuldbindingar Fastís.

Stefna Ísafjarðarbæjar er að minnka umfangs eignasafns sveitarfélagsins og er þessi aðgerð liður í þeirri vegferð. Fasteignir Ísafjarðarbæjar selja íbúðirnar til Brákar íbúðarfélags, sem er
húnsæðissjálfseignarstofnun sem stofnuð var árið 2022 af sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins. Tilgangur stofnunar Brákar var að ná fram stærðarhagkvæmni sem næst ekki með litlum  húsnæðissjálfseignastofnunum með fáar íbúðir í rekstri. Brák er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum aðgengi að íbúðum í langtímaleigu með því að kaupa eða byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri og viðhaldi íbúðanna.

Stofnframlag sveitarfélaga er 12% af stofnvirði íbúðanna, og er hlutur Ísafjarðarbæjar í verkefninu samtals um 29 m.kr.