Ísafjarðarbær hvetur til þátttöku í Lífshlaupinu
Ísafjarðarbær hvetur alla bæjarbúa til þátttöku í Lífshlaupinu sem hefst þann 5. febrúar 2020.
Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra landsmanna. Markmið þess er að hvetja landsmenn til þess að fara eftir ráðleggingum embættis landlæknis um hreyfingu hvort sem er í frítíma, vinnu, skóla eða við val á ferðamáta. Í ráðleggingunum segir að börn og unglingar ættu að hreyfa sig í minnst 60 mínútur daglega og fullorðnir ættu að stunda miðlugserfiða hreyfingu í minnst 30 mínútur daglega.
Lífshlaupið skiptist í fjóra keppnisflokka:
- vinnustaðakeppni frá 5. febrúar – 25. febrúar, fyrir 16 ára og eldri (þrjár vikur)
- framhaldsskólakeppni frá 5. febrúar – 18. febrúar, fyrir 16 ára og eldri (tvær vikur)
- grunnskólakeppni frá 5. febrúar – 18. febrúar, fyrir 15 ára og yngri (tvær vikur)
- einstaklingskeppni þar sem hver og einn getur skráð inn sína hreyfingu allt árið
Eins og ávallt eru allir landsmenn hvattir til þess að taka þátt í Lífshlaupinu og skapa skemmtilega stemningu og auka félagsandann á vinnustaðnum/í skólanum.
Skráningarferlið er einfalt og þægilegt en fínar leiðbeiningar má finna hér lifshlaupid.is/keppnir og undir viðeigandi keppni vinstra megin.
Gaman er að geta fylgst með sinni hreyfingu og jafnframt tekið þátt í þessari skemmtilegu landskeppni. Skrá má alla hreyfingu inn á vefinn svo framarlega sem hún nær ráðleggingum embættis landlæknis um hreyfingu. Einnig er auðvelt að ná í hreyfinguna sína úr Strava og Runkeeper fyrir þá sem það nota.
Nánari upplýsingar um Lífshlaupið og skráningu gefur Hrönn Guðmundsdóttir sviðsstjóri Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ, á hronn@isi.is eða í síma: 514-4000.
Lífshlaupið er skemmtilegur og góður vettvangur fyrir þá sem vilja byrja að hreyfa sig eða hreyfa sig nú þegar reglulega og vilja skrá hreyfinguna markvisst, hafa yfirlit og setja sér markmið. Auk þess að hvetja til hreyfingar daglega þá skapar verkefnið skemmtilega stemningu á heimilum, vinnustöðum og í skólum sem keppa sín á milli og innanhúss. Aðalmarkmiðið er að fá sem flesta til að hreyfa sig sem oftast á meðan á keppninni stendur.
Ísafjarðarbær hvetur því alla bæjarbúa og vinnustaði bæjarins til að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni.
Áhugasamir skrá sig til leiks á www.lifshlaupid.is