Ísafjarðarbær hlýtur styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða
Ísafjarðarbær hefur hlotið 22,88 milljóna króna styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða vegna göngustígs og áningarstaðar í Valagili fyrir botni Álftafjarðar. Markmið verkefnsins er að bæta aðgengi að gilinu en staðurinn er vinsæll áningarstaður og er á áfangastaðaáætlun Vestfjarða.
Styrkurinn nýtist í fyrri áfanga framkvæmdar þar sem á að byggja nýja brú yfir Valagilsá ásamt timburpöllum við áningarstaðinn. Einnig á að flytja malarefni í göngustíginn á verkstað, en það verður gert að vetrarlagi þegar snjór hylur jörð og hægt að komast á verkstað með stór tæki án þess að valda neinum skemmdum á gróðri. Efni sem verður notað í brú og áningarstað verður flutt á verkstað með þyrlu.
Árið 2023 hlaut Ísafjarðarbær 4,74 m.kr. styrk úr sjóðnum vegna hönnunar verksins.