Ísafjarðarbær hlýtur styrk til uppbyggingar göngu- og hjólaleiða í Önundarfirði
Tilkynnt hefur verið um úthlutun fjármuna úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða 2021 og hlaut Ísafjarðarbær 6.902.100 kr. styrk til að stika og merkja hjóla- og gönguleiðir um Klofningsdal, Eyrarfjall og á fjallið Þorfinn í Önundarfirði. Leiðirnar eru þekktar en villugjarnar og því nauðsynlegt að bæta öryggi og aðgengi og gera þær auðveldari yfirferðar. Hjörleifur Finnsson, ráðgjafi í ferðamennsku og náttúruvernd, hefur þegar tekið út leiðirnar, gert áætlun um verkþætti og áætlað kostnað við framkvæmdir auk þess sem hann hefur gert áhættumat á leiðunum. Nákvæm lega leiðanna hefur verið ákveðin og staðsetning leiðbeinandi og vegvísandi skila og táknmynda hefur verið ákveðin. Áætlað er að vinna við verkið hefjist í sumar.
Verkefnið er á áfangastaðaáætlun Vestfjarða og í umsögn sjóðsins segir m.a. að „Verkefnið [...] eykur öryggi ferðamanna og bætir grunnþjónustu á veiku svæði. Það rímar því vel við áherslur sjóðsins.“ Það var Helena Jónsdóttir, verkefnastjóri á Flateyri, sem sótti um fyrir hönd Ísafjarðarbæjar.
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er rekinn af Ferðamálastofu og hefur það hlutverk að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða og ferðamannaleiða um land allt auk þess að stuðla að jafnari dreifingu ferðamanna um landið og styðja við svæðisbundna þróun.