Íbúasamráð á Flateyri
Hvernig Flateyri? er samráðsverkefni þar sem verkefnastjóri á Flateyri, í umboði Ísafjarðarbæjar, óskar eftir ábendingum og hugmyndum frá íbúum, fjarbúum og öðrum hagsmunaaðilum um málefni sem snúa að eflingu byggðar á Flateyri og í Önundarfirði.
Hugmyndasöfnunin fer fram frá 25. nóvember til 5. janúar 2021 á Betra Ísland.
Síðar verður kosið um vinsælustu tillögurnar á sama vefsvæði.
Mögulegt er að taka þátt í verkefninu á tvo vegu, með því að:
- Setja inn hugmyndir og með því að
- Koma með rök með eða á móti hugmyndum og kjósa um þær.
Velkomið er að setja inn hugmyndir á íslensku, ensku eða pólsku.
Til þess að setja inn hugmyndir þurfa þátttakendur að velja einn af þeim átta flokkum sem settir hafa verið upp. Undir hverjum flokki er hægt að setja inn nýja hugmynd. Mikilvægt er að hugmynd sé gefið nafn, að mynd, myndband eða hljóðupptaka sé sett inn henni til stuðnings og að færð séu rök fyrir því að hugmynd er sett fram. Ef hugmyndin á við um ákveðna staðsetningu á Flateyri eða í Önundarfirði er hægt að merkja við á korti af svæðinu.
Til þess að koma með rök með eða á móti hugmyndun eða kjósa um þær þarf að fara í þá flokka sem upp hafa verið settir en þar munu hugmyndir frá þátttakendum koma fram. Skrifuð er athugasemd við hverja hugmynd (rök með eða á móti) og henni gefið atkvæði, með eða á móti, með því að notast við „þumal upp“ eða „þumal niður“.
Ekki er þörf á því að skrá sig inn á vefinn til að setja inn hugmyndir eða koma með athugasemdir eða kjósa. Það má gera nafnlaust en einnig er hægt að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum eða með því að notast við innskráningu í gegnum Facebook.
Ágætt er að hafa í huga að mikilvægt er að rýna hugmyndir til gagns og sýna þeim sem þær setja fram virðingu í athugasemdum.
Verkefnastjóri á Flateyri aðstoð gjarnan þau sem treysta sér ekki til að nýta tæknina í þessu verkefni. Hafið samband við Helenu í síma 661 7808 eða með tölvupósti helenaj@isafjordur.is.
Við hvetjum öll til að taka þátt!