Hvernig á að búa til skóla úr engu?
Ráðstefna um lýðháskóla verður haldin í Norræna húsinu í Reykjavík mánudaginn 23. apríl kl. 9.00 - 11.30. Að ráðstefnunni standa Lýðháskólinn á Flateyri, LungA-skólinn og UMFÍ.
Á ráðstefnunni mun Lisbeth Trinskjær, formaður Dönsku samtakanna um lýðháskóla (Folkehøjskolernes Forening i Danmark), fjalla um þá reynslu sem hlotist hefur af rekstri lýðháskóla á Norðurlöndunum. Rýnt verður í niðurstöður rannsókna sem sýna veruleg áhrif lýðháskóla til minnkunar brottfalls og aukningar í framhaldsmenntun meðal brottfallsnemenda á Norðurlöndumum.
Forsvarsmenn lýðháskóla á Íslandi munu fjalla um stöðu lýðháskóla á Íslandi, mögulegt hlutverk þeirra og þau áhrif sem lýðháskólar gætu haft í íslensku menntakerfi. Reynsla LungA skólans af 5 árum í rekstri og reynsla Lýðháskólans á Flateyri við að stofna skólann og afla honum stuðnings og fjármagns verður til umræðu ásamt því sem fjallað verður um áform UMFÍ um að stofna lýðháskóla á Laugarvatni.
Að lokum munu fyrrum nemendur við lýðháskóla fjalla um reynslu sína af veru við LungA skólann og við lýðháskóla á Norðurlöndum.
Ráðstefnan er liður í vinnu við úttekt og stefnumótun á stöðu lýðháskóla á Íslandi og verður mikilvæg uppspretta umræðu og upplýsinga sem nota má í þeirri vinnu.
Ráðstefnan er opin öllum.
Fyrirlesarar og kynningar:
- Lisbeth Trinskjær, formaður samtaka danskra lýðháskóla
- Jonatan Spejlborg - skólastjóri LungA skólans
- Auður Inga Þorsteinsdóttir - Framkvæmdastjóri Ungmennafélags Íslands
- Helena Jónsdóttir - Framkvæmdastjóri Lýðháskólans á Flateyri
- Fyrrum nemendur við LungA skólann og lýðháskóla á Norðurlöndum