Hvatningarverðlaun og heiðursverðlaun íþrótta- og tómstundanefndar afhent

Jóhanna Oddsdóttir ásamt Hrafnhildi Hrönn Óðinsdóttur, formanni íþrótta- og tómstundanefndar.
Jóhanna Oddsdóttir ásamt Hrafnhildi Hrönn Óðinsdóttur, formanni íþrótta- og tómstundanefndar.

Íþrótta- og tómstundanefnd Ísafjarðarbæjar afhenti í gær hvatningarverðlaun og heiðursverðlaun á útnefningarhófi íþróttamanns Ísafjarðarbæjar.

Þrjár tilnefningar um hvatningarverðlaun bárust frá íþróttafélögunum að þessu sinni og eru það þær Harpa Björnsdóttir, hjá Íþróttafélaginu Ívari, Jóhanna Oddsdóttir, hjá Skíðafélagi Ísfirðinga, og Signý Þöll Kristinsdóttir, hjá blakdeild Vestra sem hlutu verðlaunin. Allar eiga þær það sameiginlegt að hafa unnið af mikilli ósérplægni fyrir félögin um árabil.

Þá var skíðagöngumanninum Snorra Einarssyni veitt heiðursverðlaun fyrir íþróttaafrek sín, en eins og flestum er kunnugt um keppti Snorri fyrir hönd Íslands á Ólympíuleikunum í Peking á síðasta ári.