Húsnæðisáætlun Ísafjarðarbæjar uppfærð
Bæjarstjórn hefur samþykkt húsnæðisáætlun Ísafjarðarbæjar 2023-2032 og var það gert á 501. fundi þann 3. nóvember 2022.
Að sögn Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra, hefur áætlunin verið lengi í undirbúningi en kerfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem sér um uppsetningu áætlunarinnar gerir ekki ráð fyrir fjölkjarna sveitarfélögum sem tafði vinnuna, enda þurfti að handslá gögnin inn í áætlunina.
„Ástæðan fyrir því að við þrýstum á að klára áætlunina núna var að stofnframlög til byggingar stúdentagarða á Ísafirði byggja á því að húsnæðisáætlun liggi fyrir,“ segir Arna. „Við vorum komin í snúna stöðu því á meðan HMS gat ekki sett inn gögnin okkar til að gera nýja áætlun var ekki hægt að veita stofnframlög til byggingar stúdentagarða á Ísafirði en HMS gerir kröfu um að húsnæðisáætlun liggi fyrir þegar stofnframlög eru veitt.“
Að sögn Örnu verður áætlunin endurskoðuð árlega og er gott plagg fyrir stjórnendur sveitarfélagsins til að vinna eftir, enda veiti hún yfirsýn yfir þörf á húsnæði í öllu sveitarfélaginu. „Þegar breytingar verða á forsendum er svo einfaldlega hægt að uppfæra áætlunina.“
Áætlunin er unnin í samræmi við reglugerð um húsnæðisáætlanir sveitarfélaga frá 2018 og er markmið hennar að skapa yfirsýn yfir húsnæðismál, meta þarfir ólíkra hópa íbúa og svæða í sveitarfélaginu og gera áætlun um uppbyggingu íbúða til næstu 10 ára. Í áætluninni er farið yfir mannfjöldaspá og lýsingu á atvinnuástandi eftir kjörnum sveitarfélagsins, áætlaða íbúðaþörf eftir búsetuformum og markmið sveitarfélagsins varðandi íbúðauppbyggingu. Þá er gerð grein fyrir þjónustu og innviðum á borð við skóla og hjúkrunarrými. Að lokum eru markmið sveitarfélagsins í lóðamálum listuð auk íbúða í byggingu.
Lykiltölur úr áætluninni:
Mannfjöldaspá
+5 ár (miðspá)
163 ↑4,3%
Mannfjöldaspá
+10 ár (miðspá)
448 ↑11,7%
Íbúðir í byggingu
(september 2021)
9
Íbúðir í byggingu
(september 2022)
23 ↑155,6%
Áætluð íbúðaþörf +5
ár (miðspá)
91 ↑5,4%
Áætluð íbúðaþörf +10
ár (miðspá)
199 ↑11,8%
Fjöldi íbúða á
skipulögðum lóðum
+5 ár
36
Fjöldi íbúða á
skipulögðum lóðum
+10 ár
36