Hátíðarhöld með hefðbundnu sniði á Ísafirði
Hátíðarhöld á þjóðhátíðardaginn 17. júní verða með hefðbundnum hætti á Ísafirði og hefjast venju samkvæmt klukkan 13.45 með göngu frá Silfurtorgi að Eyrartúni þar sem lögregla og skátar verða í broddi fylkingar. Lúðrasveit Tónlistarskólans á Ísafirði undir stjórn Madisar Mäekalle tekur á móti göngunni við bæjar- og héraðsbókasafnið og í kjölfarið flytur dr. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir þjóðfræðingur hátíðarræðu dagsins. Ólína hyggur nú á búferlaflutninga eftir 16 ára búsetu á Ísafirði þar sem hún hefur meðal annars starfað sem skólameistari Menntaskólans á Ísafirði og alþingismaður Norðvesturkjördæmis og er vel við hæfi að hún kveðji sveitunga sína á þennan hátt. Hátíðardagskrá lýkur svo með söng hátíðarkórs undir stjórn Tuuli Raehni og ljóðalestri fjallkonunnar.
Barnadagskrá hefst í kjölfarið með leikþætti dýranna í Hálsaskógi, en einnig verður í boði andlitsmálun, ratleikur, kassabílarallý, karamelluregn og hoppikastalar.