Gramsverslun: Lagt til að samið verði við Fasteignafélag Þingeyrar

Gramsverslun á Þingeyri. Mynd úr skoðunarskýrslu Tækniþjónustu Vestfjarða.
Gramsverslun á Þingeyri. Mynd úr skoðunarskýrslu Tækniþjónustu Vestfjarða.

Bæjarráð hefur lagt til við bæjarstjórn að gengið verði til samninga við Kjartan Ingvarsson, f.h. Fasteignafélags Þingeyrar ehf., um að yfirtaka Gramsverslun að Vallargötu 1 á Þingeyri.

Á 1211. fundi bæjarráðs, þann 19. september 2022, fól bæjarráð bæjarstjóra að auglýsa eftir áhugasömum aðilum til að taka Gramsverslun yfir, með þeim kvöðum að húsið verði gert upp. Var húsið auglýst áhugasömum aðilum í kjölfarið.

Formlegar umsóknir bárust frá eftirtöldum aðilum:

  • Garðar Einarsson f.h. Ankor ehf.
  • Goði Gunnarsson
  • Kjartan Ingvarsson f.h. Fasteignafélags Þingeyrar ehf.

Umsóknirnar voru metnar út frá fjórum þáttum sem höfðu mis mikið vægi:

  • Notkun mannvirkis með tilliti til samfélags og atvinnumála (vægi 40%)
  • Framtíðarsýn (vægi 25%)
  • Tímalína verkefnis (vægi 15%)
  • Verkáætlun (vægi 15%)

Í minnisblaði Axels R. Överby, sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar, kemur fram að í umsókn Kjartans er framtíðarsýn vel útskýrð í stuttu máli og í henni er skýr sýn um staðsetningu mannvirkis, heildaryfirbragðs og götumyndar í miðbæ Þingeyrar. Þá kemur fram að samfélagslegur ávinningur og tenging við aðra starfsemi á svæðinu s.s. menningu, listir og verslun er vel útfærð í umsókninni og getur haft mikla þýðingu fyrir samfélagið og stuðlað að fjölgun starfa. Einnig þykir tímarammi vera skoðaður að vel athuguðu máli frá skipulagsstigi til upphafs framkvæmda.