Græn vika 26.-31. maí
Græn vika verður haldin í Ísafjarðarbæ dagana 26.-31. maí. Í grænni viku eru íbúar og fyrirtæki í sveitarfélaginu hvött til að taka til í sínu nærumhverfi, skella sér út að plokka og snyrta garða til að gera Ísafjarðarbæ enn fallegri, íbúum sínum til sóma.
Einhver hverfisráð ætla að skella í grill af þessu tilefni og munu þau auglýsa tímasetningu á sínum miðlum.
Garðaúrgangur
Gámar fyrir garðaúrgang hafa verið settir út og verða opnir í allt sumar. Þá má finna á eftirfarandi stöðum.
Flateyri:
Á gámavelli við hafnarsvæði.
Hnífsdalur:
Við félagsheimilið.
Ísafjörður:
Gámur er staðsettur inni á gámasvæði Funa en einnig er gámur fyrir utan girðingu sem hægt er að nota þegar afgreiðsla er lokuð.
Suðureyri:
Við Klofning.
Þingeyri:
Á gámavelli við höfnina.
Mikilvægt er eingöngu sé settur garðaúrgangur í gámana.
Almennt sorp
Í grænni viku verða einnig settir út gámar fyrir almennan úrgang sem safnast saman við hreinsun umhverfis. Þeir eru ekki ætlaðir fyrir rusl úr bílskúrs- eða geymslutiltekt, þaðan af síður farma af byggingarúrgangi eftir framkvæmdir.
Gámarnir verða staðsettir við hlið garðaúrgangsgámana á Flateyri, Hnífsdal, Suðureyri og á Þingeyri. Á Ísafirði verður einn gámur við glersöfnunina við Landsbankaplanið, Hafnarstræti og annar við Árholt í Tunguhverfi.
Hvað á þá að gera við draslið úr bílskúrnum? Græn vika er kjörið tilefni til að skella upp bílskúrssölu og koma því sem nýtilegt er í hendur nýrra eigenda.