Góður árangur í flokkun lífræns sorps
Tæpt ár er síðan bæjarbúar í Ísafjarðarbæ fengu ílát til að flokka lífrænan eldhúsúrgang og óhætt er að segja að mjög góður árangur hafi náðst í bættri flokkun á þessum tíma. Séu tölur um sorpmagn bornar saman milli ára má sjá að frá janúar til og með júlí 2018 var magn almenns sorps frá heimilum alls um 334 tonn en hafði minnkað niður í um 226 tonn yfir sama tímabil 2019. Þetta þýðir að um þriðjungur almenns sorps er nú flokkað sem lífrænt sorp sem fer til moltugerðar í gámum hjá Gámaþjónustu Vestfjarða. Því er mun minna af sorpi flutt úr sveitarfélaginu til urðunar sem felur í sér lægri kostnað fyrir Ísafjarðarbæ og dregur úr neikvæðum umhverfisáhrifum.
Eitthvað hefur borið á því að sorp sem ekki er jarðgeranlegt, svo sem plast, slæðist með í lífræna úrganginn og því er ástæða til að brýna fyrir bæjarbúum að vanda sig við flokkun. Áður en moltan verður tilbúin til notkunar er þó plast sigtað úr henni eftir föngum.
Hægt er að kynna sér leiðbeiningar um flokkun á vef Gámaþjónustu Vestfjarða.