Gjaldskrár 2023 – helstu breytingar milli ára

Fréttin var uppfærð 2. desember 2022, vegna breytinga á gjaldskrá skíðasvæðis sem samþykktar voru á 503. fundi bæjarstjórnar þann 1. desember.


Bæjarstjórn samþykkti framkomnar gjaldskrár sveitarfélagsins fyrir árið 2023 á 501. fundi sínum sem haldinn var fimmtudaginn 3. nóvember.

Miðað var við að almenn hámarkshækkun á gjaldskrám væri 8% en flestar hækkuðu að jafnaði um 2-6%.  

Við hækkanir var horft til hækkunar verðlags og að greiðsla fyrir ákveðna þjónustu taki mið af kostnaði, s.s. varðandi matarinnkaup, útköll starfsmanna og leyfisgjöld. Afsláttum er áfram haldið inni, s.s vegna barna á grunn- og leikskóaaldri.

Helstu breytingar:

Dægradvöl

Í stað tímaskráninga í dægradvöl er tekið upp fast daggjald fyrir hvern þann dag sem barn er skráð í dægradvöl. Það einfaldar skráningar og utanumhald starfsfólks og minnkar umsýslu. Gjald fyrir hressingu lækkar um 25%.

Leikskólar

Nýtt í gjaldskrá er afsláttur fyrir tekjulægri foreldra. Einstæðir foreldrar með árstekjur 0 kr. til 4.823.000.kr. og foreldrar í sambúð með árstekjur 0 kr. til 7.717.000 kr. fá 40% afslátt af leikskólagjöldum. Horft er til viðmiða varðandi tekjutengingu annarra gjaldskráa hjá Ísafjarðarbæ, og lágmarkslaun í landinu. Þessi afsláttur kemur í stað forgangsgjaldskrár sem fellur niður, en hún veitti 35% afslátt til einstæðra foreldra eða ef foreldrar voru bæði í námi.

Þá hefur orðið breyting varðandi s.k. 9. klukkutíma. Í dag eru leikskólar Ísafjarðarbæjar með vistunartíma í 8,5 klst. að hámarki og er gjaldskrá breytt til samræmis við það þannig að hálftíminn lengur en 8 klst. kosti meira en aðrir klukkutímar. Áður var vistunartíminn að hámarki 9 klst. og viðmið gjaldskrár út frá því. 

Skólamatur

Nýtt í gjaldskrá er að hafragrautur fyrir unglingadeild GÍ verður gjaldfrjáls. Að öðru leyti hækkar gjaldskrá um 5-8% og er þar horft til hækkunar verðlags. Stök máltíð og ávextir hækka um 5% og mjólkuráskrift um 7-8%.

Veittur er 10% afsláttur af hádegismat ef barn er skráð alla skóladaga í bundna áskrift í heila önn.

Skíðasvæði

Nýr valkostur í gjaldskrá skíðasvæðanna er svo kallaður Heilsupassi, sem veitir vetraraðgang að skíðasvæðum og ársaðgang í sund á 39.000 kr. Hægt er að kaupa passann í sundlaugum Ísafjarðarbæjar eða á skíðasvæðunum.

Ekki er lengur frítt að fara í byrjendabrekkuna í Tungudal tímabilið 15. nóvember-15. mars.

Sundlaugar, líkamsrækt og íþróttahús

Árskort í sund hækkar um 10% og er í samræmi við hækkun gjaldskrár í Bolungarvíkurkaupstað. Árskortið gildir í allar laugar í Ísafjarðarbæ og Bolungarvík.

Eins og fram kom í textanum um skíðasvæðin er Heilsupassinn kynntur til leiks í gjaldskrá, sem veitir vetraraðgang að skíðasvæðum og ársaðgang í sund á 39.000 kr.

Skipulagsbreytingar og framkvæmdaleyfi

Inn í gjaldskrá bætast nýir liðir; afgreiðslugjald vegna aðalskipulags- og deiliskipulagsbreytinga (kr. 7.100) auk gjalds fyrir framkvæmdaleyfi vegna minniháttar framkvæmda (kr. 30.000) og tímagjalds vegna eftirlits umfram það sem er innifalið í framkvæmdaleyfisgjöldum (kr. 16.500).

Kostnaður vegna grenndarkynninga er lækkaður verulega, til samræmis við gjaldskrár annarra sveitarfélaga, verður 47.850, en var 87.802.

Gjaldskrá velferðarsviðs

Hækkun um 9-10% vegna hækkaðs verðlags, aðallega á vinnuliðum og matarinnkaupum, svo gjald standi undir kostnaði. Gjaldskrár Hvestu og skammtímavistunar varðandi matarkostnað hafa verið samræmdar.

Þá eru nokkrir liðir felldir út þar sem þjónusta er ekki lengur veitt eða gjald ekki innheimt, s.s. innheimta innritunargjalds í félagsstarf aldraðra og sálfræðiþjónusta. 


Tvær gjaldskrár eru felldar niður í heild sinni, það er gjaldskrá búfjáreftirlits og gjaldskrá vinnuskóla. Sú síðarnefnda fellur niður þar sem illa hefur gengið að veita þjónustuna undanfarin ár vegna manneklu, auk þess sem einkaaðilar bjóða upp á þessa þjónustu í bæjarfélaginu. Ekki rétt að sveitarfélagið sé í samkeppnisrekstri vegna þessa.

Gjaldskrá sorphirðu er enn í vinnslu enda eru miklar breytingar fyrirhugaðar í málaflokknum vegna breytinga á lagaumhverfi sem taka gildi um áramótin.