Fyrstu niðurstöður ársuppgjörs 2022 betri en gert var ráð fyrir

Fyrstu drög að ársuppgjöri Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2022 hafa verið kynnt í bæjarráði. Í minnisblaði Eddu Maríu Hagalín, fjármálastjóra Ísafjarðarbæjar, kemur fram að ársuppgjör samantekins A- og B-hluta sýnir nú rekstrarhalla upp á 149,2 m.kr. fyrir árið 2022. Fjárhagsáætlun fyrir sama tímabil gerir ráð fyrir rekstrarhalla upp á 149,8 m.kr. Reksturinn er því 0,6 m.kr. betri en áætlað var fyrir árið.

Rekstrarreikningur A-hluta fyrir árið 2022 sýnir nú rekstrarhalla upp á 235,7 m.kr. Fjárhagsáætlun fyrir árið gerir ráð fyrir rekstrarhalla upp á 377 m.kr. Rekstur A-hluta er því 141,7 m.kr. betri en áætlað var fyrir árið.

„Að mínu mati er þessi niðurstaða afar ásættanleg miðað við ytra rekstrarumhverfi sveitarfélaga,“ segir Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri. Hún bendir þó á að þetta eru óendurskoðaðir reikningar og því gæti niðurstaðan breyst. „Á síðasta ári komu upp mál og aðstæður sem voru krefjandi og ekki hafði verið gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Þrátt fyrir það tókst stjórnendum Ísafjarðarbæjar að skila þessari niðurstöðu, sem ber að þakka.“ 

Fyrri umræða um ársreikning 2022 er á dagskrá bæjarstjórnar 5. maí 2023. Helstu upplýsingar úr minnisblaði fjármálastjóra eru teknar saman hér að neðan:

Rekstur

Rekstrartekjur samstæðu eru hærri en áætlun gerði ráð fyrir sem nemur 209 m.kr. og rekstrargjöld eru hærri en áætlun gerði ráð fyrir sem nemur 132 m.kr. Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld eru 70,5 m.kr. hærri í kostnaði en áætlun gerði ráð fyrir. Nettóáhrif eru því 0,6 m.kr. betri rekstrarniðurstaða en áætlað var.

Rekstrartekjur A-hluta eru hærri en áætlun gerði ráð fyrir sem nemur 237 m.kr. og rekstrargjöld eru hærri en áætlun gerði ráð fyrir sem nemur 59 m.kr. Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld eru 52 m.kr. hærri í kostnaði en áætlun gerði ráð fyrir og söluhagnaður 16,2 m.kr. hærri en áætlað var. Nettóáhrif eru 141,7 m.kr. betri rekstrarniðurstaða en í áætlun.

Útsvarstekjur

Í greiningu á ársuppgjöri kemur fram að skatttekjur tímabilsins eru 2.623 m.kr., sem er 54 m.kr. lægri en áætlun með viðaukum gerði ráð fyrir. Áætlun ársins gerði upphaflega ráð fyrir að útsvarstekjur yrðu 2.441 m.kr. en í viðauka 18 var áætlunin endurmetin og hækkuð í 2.677 m.kr. út frá nýrri spá frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Jöfnunarsjóður

Greiðslur frá jöfnunarsjóði eru 121,4 m.kr yfir áætlun. Greiðslur á tímabilinu eru samtals 1.105 m.kr. samanborið við áætlun upp á 983 m.kr. fyrir sama tímabil. Í upphaflegri áætlun var gert ráð fyrir 959,6 m.kr. úr jöfnunarsjóði en vorið 2022 birti sjóðurinn nýja áætlun fyrir sveitarfélagið og var áætlunin uppfærð í viðauka 7. Jöfnunarsjóður birti enn aðra áætlun fyrir sveitarfélagið haustið 2022 þar sem upphæðin var 1.029 m.kr. en að lokum úthlutaði sjóðurinn Ísafjarðarbæ, sem fyrr segir, 1.105 m.kr.