Fyrsti leikurinn á nýjum fótboltavelli um helgina
Undanfarnar vikur hefur nótt verið lögð við dag til að klára framkvæmdir við keppnisvöllinn á Torfnesi og nú er loks komið að því að Vestri getur spilað þar sinn fyrsta heimaleik, laugardaginn 22. júní klukkan 14. Endurbæturnar á æfinga- og keppnisvöllunum á Torfnesi eru með umsvifamestu framkvæmdum sveitarfélagsins á þessu og síðasta ári og er mikið fagnaðarefni að nú skuli svæðið allt komast í notkun.
Saga fótboltaiðkunar á Torfnesi nær aftur um 60 ár, en fyrsti fótboltavöllurinn sem leikið var á á Torfnesi var tekinn í notkun árið 1964. Síðan þá hafa ýmsar útgáfur af fótboltavöllum þjónað knattspyrnufólki svæðisins en óhætt er að segja að aðstæðurnar sem nú hafa verið gerðar eru þær bestu hingað til.
Ísafjarðarbær óskar Vestra og Herði til hamingju með nýja heimavöllinn, sem fengið hefur nafnið Kerecisvöllurinn, og hvetur íbúa til að fjölmenna á leik Vestra gegn Val á laugardaginn.
Dagskráin hefst kl. 13 þegar fýrað verður upp í grillunum og boðið upp á andlitsmálun. Frá klukkan 13 og fram að leik munu svo fara fram ræðuhöld, fimm einstaklingar verða sæmdir silfurmerki KSÍ, boðið upp á lifandi tónlist og fleira.