Framkvæmdir vegna myglu í Grunnskólanum á Ísafirði á lokametrunum

Framkvæmdir sem ráðast þurfti í vegna myglu í gulu byggingu Grunnskólans á Ísafirði, nánar til tekið í stofum 109-111 og 211-213, auk aðliggjandi ganga, eru á lokametrunum.

Verkið hefur gengið framar vonum, en það var í maí á þessu ári sem niðurstaða sýnatöku úr stofunum staðfesti að þar væri mygla og að aðgerða væri þörf.

Þann 9. september barst skýrsla frá verkfræðistofunni Eflu sem sér um hönnun, eftirlit og umsjón framkvæmda.

Í skýrslunni kemur fram að eftirtaldir verkþættir eru eftir:

  • Hvítar áláfellur bakvið þakrennu og niður að glugga á 2.hæð
  • Hvítar áláfellur lóðrétt milli glugga
  • Endurnýjun á þakniðurföllum
  • Setja upp útiljós og skólabjöllu.
  • Pantaðir hafa verið gluggar í útveggi norðurhliðar kennslustofa, um er að ræða gluggaröð efst í útvegg við þök, stefnt er á að skipta um glugga í haust.

Hér að neðan er svo yfirlit yfir þá verkþætti sem er lokið.

Innanhúss:

  • Ofnar og ofnalagnir fjarlægðar
  • Rif og hreinsun múrhúðar og korks innan af útveggjum suðurhliðar á 1.hæð og 2.hæð
  • Útveggir slípaðir að innan með bollaskífu inn í hreina steypu
  • Gluggar og gler fjarlægt á báðum hæðum
  • Sprunguþéttingar útveggja með inndælingu úr polyurethan tveggja þátta efni
  • Ryðhreinsun á steypustyrktarstáli, steypuhula var mjög lítil og þurfti að múra inn í gluggagöt til að ná viðeigandi steypuhulu utan um stálið
  • Tilfallandi múrviðgerðir
  • Filtun með múr innan á útveggi
  • Útveggir einangraðir með 100 mm frauðplasteinangrun og múrað á einangrun
  • Útveggir sandsparslaðir og málaðir
  • Nýir ofnar og ofnalagnir sett upp
  • Stofur og aðliggjandi gangar parketlagðir og öll rými endurmáluð
  • Loftljós í kennslustofum endurnýjuð, sem og sett rafdrifin opnun á opnanleg fög glugga

Utanhúss:

  • Útveggir háþrýstiþvegnir
  • Málning slípuð af útveggjum
  • Múrviðgerðir á köntum og bitum, auk viðgerða kringum steypustyrktarstál
  • Nýir timburgluggar og sólstopp gler sett í gluggagöt, útihurðir endurnýjaðar á 1.hæð
  • Útveggir filtaðir með flísalími og einangraðir með 50 mm drenerandi einangrun
  • Múrklæðning sett yfir einangrun, vatnsbretti úr náttúrstein sett undir alla glugga
  • Veggir grunnaðir og málaðir í hvítum lit