Fossvatnsgangan fær Virðisaukann

Viðurkenningar- og hvatningarverðlaun atvinnu- og menningamálanefndar, og þar með farandgripinn Virðisaukann, hlýtur Fossavatnsgangan sem er elsta skíðamót sem enn er haldin á Íslandi. Fyrsta gangan fór fram árið 1935 og hefur farið fram árlega frá árinu 1955. Fossavatnsgangan hefur vakið sífellt meiri athygli, bæði hérlendis og erlendis. Mótið var stofnaðili að norrænni mótaröð, FIS Nordic Ski Marathon Cup, er hluti af Landvættunum og er nýlega orðinn hluti af hinni þekktu Worldloppet mótaröð. Allt þetta hefur orðið til þess að þátttaka í göngunni hefur farið vaxandi frá ári til árs. Á árinu 2016 voru 1.000 manns skráðir í mótið, þar af tæplega helmingurinn í 50 km gönguna. Gangan fer fram utan háannatíma ferðaþjónustunnar og fyllir Ísafjörð lífi.
Forsvarsmenn Fossavatnsgöngunnar fengu á síðasta ári styrk frá Uppbyggingasjóði ferðamannastaða til vinna að uppbyggingu svæðisins, merkinga leiða og lagningar keppnisbrautar sem þeir vonast til að nýtist til að skíða, ganga eða hjóla allan ársins hring.