Flateyri: Vatni hleypt aftur á í kvöld

Uppfært kl. 22: Því miður tók lengri tíma en áætlað að koma tankinum í stand áður en var hægt að fylla á hann aftur. Það verður opnað fyrir vatnið þegar hefur safnast aðeins inn á hann, líklega undir miðnætti.

Stefnt er að því að hleypa vatni aftur á Flateyri í kvöld. Nákvæm tímasetning liggur ekki fyrir en líklega einhvern tíma milli kl. 19 og 21. Tankbíll með hreinu neysluvatni verður í Ólafstúni þar til vatni verður aftur hleypt á.

Vinnan sem stendur nú yfir er að tæma vatnstankinn til að hreinsa úr honum skriðumengað vatn. Að því loknu þarf að fylla tankinn aftur. Vatnið verður ekki sótthreinsað með geislum fyrr en á morgun og því þarf að sjóða neysluvatn. Sérstök tilkynning verður send út til íbúa þegar óhætt er að hætta suðu neysluvatns.

Viðbúið er að loft og óhreinindi verði í lögnum þegar vatnið kemur aftur á kerfið og eru íbúar því hvattir til að láta vatnið renna vel áður en það er notað.

SMS hefur verið sent til íbúa í gegnum kerfi 1819.is. Skilaboðin sendast eingöngu til þeirra sem eru með skráð símanúmer og heimilisfang hjá 1819 og því þurfa þau sem óska eftir að fá send upplýsingaskeyti að sjá til þess að skráning sé til staðar. Til að skrá númer þarf að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum á 1819 og velja Mín skráning undir Minn aðgangur. Þar er hægt að setja inn eða uppfæra símanúmer og heimilisfang.