Flateyri: Staðan á vatnsmálum 13. nóvember

Staðan á vatnsmálum á Flateyri er þannig miðvikudaginn 13. nóvember:

Tankbíll hefur verið að dæla inn á kerfið svo nú er hægt að fá vatn úr krönum á ný. Krafturinn er þó lítill og eru íbúar beðnir um að fara sparlega með vatnið.

Aðstæður til að komast að vatnsbólinu eru slæmar vegna nýfallinna aurskriða en stefnt er að því að komast þangað með mannskap eftir hádegi í dag. Þá verður reynt að hreinsa geislunarperur sem sótthreinsa vatnið. Því miður er veðurspáin ekki góð næstu daga svo erfitt er að segja til um hvenær vatnsveitan kemst á af fullum krafti.

Sundlaugin verður lokuð í dag.

Íbúar verða áfram upplýstir hér á vef Ísafjarðarbæjar, á Facebook-síðu sveitarfélagsins og með SMS-skilaboðum.

SMS hefur verið sent til íbúa í gegnum kerfi 1819.is. Skilaboðin sendast eingöngu til þeirra sem eru með skráð símanúmer og heimilisfang hjá 1819 og því þurfa þau sem óska eftir að fá send upplýsingaskeyti að sjá til þess að skráning sé til staðar. Til að skrá númer þarf að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum á 1819 og velja Mín skráning undir Minn aðgangur. Þar er hægt að setja inn eða uppfæra símanúmer og heimilisfang.